Frank Aron Booker er nú orðinn 19 ára gamall og á fyrsta ári með körfuboltaliði Oklahoma-háskólans í Big 12 deildinni í NCAA en hann er sonur Frank Booker sem var í aðalhlutverki í íslenskum körfubolta frá 1991 til 1995.
Franc Booker eldri spilaði sína fyrstu leiki á Íslandi þegar hann kom til ÍR í janúar 1991.
Frammistaða hans fyrsta mánuðinn verður seint toppuð. Franc Booker skoraði fimmtán þriggja stiga körfur í fyrsta leiknum (á móti Njarðvík 8. janúar) og alls 63 þrista í sex leikjum í janúar, eða 10,5 að meðaltali í leik.
Hann skoraði fimmtán þriggja stiga körfur í 1. og 3. leik sínum (á móti Snæfelli 17. janúar) á Íslandi og það er enn í dag met yfir flestar þriggja stiga körfur í einum leik í úrvalsdeild karla.
Booker skoraði alls 304 stig í þessum sex leikjum ÍR í janúar 1991, eða 50,7 stig að meðaltali í leik.
Booker hitti úr 63 af 130 þriggja stiga skotum sínum í þessum sögulega mánuði sem gerir 48 prósenta þriggja stiga skotnýtingu. Hann fékk hins vegar ekki skráða á sig eina stoðsendingu í þessum leikjum.
