Handbolti

Samúel Ívar rekinn frá HK | Ágúst tekur við

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
VÍSIR/STEFÁN
Samúel Ívar Árnason hefur verið sagt upp störfum hjá úrvalsdeildarliði HK í handbolta. ÁgústJóhannsson tekur við liðinu. Frá þessu er greint á heimasíðu HK.

Samúel Ívar tók við HK fyrir tímabilið en ekkert hefur gengið hjá liðinu sem er í lang neðsta sæti Olís deildarinnar með aðeins þrjú stig í fimmtán leikjum.

Þegar 12 stig eru í pottinum er HK sjö stigum á eftir næsta liði, Akureyri, og fall blasir við liðinu sem er í uppbyggingarfasa með marga unga leikmenn í liðinu.

Ágúst Jóhannsson landsliðsþjálfari kvenna í handbolta mun stýra liðinu það sem eftir lifir tímabili.

Fréttatilkynning HK í heild sinni:Samúel tók við sem þjálfari fyrir þetta tímabil og hefur lagt mikla vinnu í þjálfun liðsins. Stjórn handknattleiksdeildar vill þakka Samúel fyrir samstarfið og óskar honum allls hins besta í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur.

Eftir síðasta keppnistímabil var ákveðið að móta stefnu til lengri tíma og hefja uppbyggingu innan félagsins með það að markmði að fjölga iðkendum, auka gæði þjálfunar og að í nánustu framtíð væri ætíð stærsti hluti leikmanna meistaraflokka HK uppaldir innan félagsins. Leikmenn fengju þá umgjörð sem nauðsynleg væri til að ná framförum og geta um leið sett sér háleit markmið.

Til að slíkt gangi upp þurfa allir sem koma að liðinu að hafa skýra stefnu og sýn.  Þessi ákvörðun núna er bara einn hluti af því að fara yfir og skerpa stefnuna. Stjórn deildarinnar og leikmenn bera ekki síður en þjálfarinn mikla ábyrgð á hvernig komið er og mun ekkert verða undanskilið í þeirri vinnu sem nú er framundan hjá HK.

Til að brúa bilið það sem eftir er af þessu tímabili hefur HK, í góðri samvinnu við HSÍ og handknattleiksdeild  Víkings, fengið Ágúst Jóhannsson til að stýra liðinu næstu tvo mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×