Innlent

Mál gegn stofnanda Stöndum saman fellt niður

Samúel Karl Ólason skrifar
Dómsmál gegn stofnanda síðunnar Stöndum saman, þar sem birtar eru myndir af mönnum sem hafa hlotið dóm fyrir barnaníð, hefur verið fellt niður af Ríkissaksóknara.

Í bréfi frá ríkissaksóknara til Óskars Inga Þorgrímssonar, sem birt var á Facebooksíðu Stöndum saman, segir að gögn málsins hafi verið yfirfarin, en ekki sé talið að þau séu nægileg eða líkleg til sakfellingar.

Í samtali við Vísi í október sagði Óskar að hann hafi verið kærður vegna þess að hann hafi orðið til þess að barnaníðingur hafi misst vinnunna.

„Ég starfaði um tíma sem fangavörður og vissi fyrir hvað þessi maður sat inni. Ég fékk svo upplýsingar um að hann starfaði sem rútubílstjóri og vissi að hann var í kringum börn. Ég hafði samband við fyrirtækið sem hann starfaði hjá og greindi þeim frá því að hann hefði setið inni fyrir barnaníð,“ sagði Óskar við Vísi í október.

„Það getur verið að ég hafi brotið reglur en það er borgaraleg skylda mín að greina frá þegar ég hef svona upplýsingar. Ég hefði ekki getað hugsað þá hugsun til enda að vita að manninum með aðgengi að börnum án þess að gera eitthvað í því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×