Sport

UFC 175: Nær skýjakljúfurinn að sigra fyrrum NFL leikmanninn?

Guttormur Árni Ársælsson skrifar
UFC 175 fer fram í Mandalay Bay í Las Vegas, Nevada þann 5. júlí næstkomandi. Fimm bardagar verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst hún klukkan 2. Við hitum upp fyrir bardaga kvöldsins

Stefan Struve (25-6) gegn Matt Mitrione (7-3) - þungavigt

Stefan Struve er hávaxnasti bardagakappinn í UFC en hann er 213cm á hæð og ber viðurnefnið skýjakljúfurinn. Struve hefur verið gagnrýndur fyrir að nýta sér ekki hæð sína og leyfa andstæðingum að komast of nálægt sér. Þetta sýndi sig í síðasta bardaga hans, gegn Mark Hunt, en Hunt er aðeins 178cm á hæð. Þrátt fyrir það komst Hunt ítrekað nálægt Struve og rotaði hann á endanum. Struve hefur glímt við sjaldgæfan hjartasjúkdóm og um tíma var ekki víst hvort hann ætti afturkvæmt í MMA.

Matt Mitrione er fyrrum amerískur fótboltamaður sem lék á árum áður í NFL deildinni með New York Giants og Minnesota Vikings. Mitrione hóf MMA ferilinn 2009 og komst inn í UFC í gegnum The Ultimate Fighter þáttaröðina. Mitrione er höggþungur en hefur átt það til að vera kærulaus og er ekki besti glímumaðurinn í UFC.

3 atriði til að hafa í huga

  • Struve að koma til baka eftir kjálkabrot gegn Mark Hunt
  • Mitrione barðist síðast í mars á meðan Struve hefur ekki barist í yfir ár
  • Struve er með 31 atvinnumannabardaga á herðunum er aðeins 26 ára gamall
Uriah Hall (8-4) gegn Thiago Santos (9-2) - millivigt (84 kg)

Uriah Hall lenti í öðru sæti í 17. seríu af The Ultimate Fighter. Þar rotaði hann hvern andstæðinginn á fætur öðrum og leit óstöðvandi út. Forseti UFC, Dana White, hafði orð á því að Hall myndi valda mörgum núverandi millivigtarmönnum vandræðum. Hall hefur hins vegar ekki náð sér á strik eftir að seríunni lauk og hefur aðeins unnið einn bardaga af þremur í UFC.

Thiago Santos var keppandi í The Ultimate Fighter Brazil 2 þar sem hann var valinn síðastur í lið Fabricio Werdum og tapaði í fjórðungsúrslitum gegn Leandro Santos, sem sigraði að lokum þáttaröðina.

3 atriði til að hafa í huga

  • Fyrsta sinn sem Santos berst utan Brasilíu
  • Uriah Hall hefur sigrað fimm af átta bardögum með rothöggi
  • Hall mætti núverandi millivigtarmeistara, Chris Weidman, árið 2010 og tapaði. Það var hans fyrsta tap á ferlinum.
Marcus Brimage (6-2) gegn Russell Doane (13-3) - bantamvigt (61 kg)

Marcus Brimage keppti síðast í apríl 2013 gegn Conor McGregor, sem þá var að berjast í fyrsta sinn í UFC. Brimage tapaði þeim bardaga og færði sig í kjölfarið niður um þyngdarflokk í bantamvigtina. Þetta verður því fyrsti bardagi hans í þeim þyngdarflokki.

Russell Doane er frá Hawaii og þreytti frumraun sína í UFC í janúar. Hann er ekki eins þekkt nafn og Brimage en hlaut bónus fyrir uppgjafartak kvöldsins í sínum fyrsta UFC bardaga eftir fallega „triangle" hengingu.

3 atriði til að hafa í huga

  • Doane hefur verið meistari í þremur minni samtökum
  • Brimage berst í fyrsta sinn í bantamvigt og verður fróðlegt að sjá hvort hann lendi í vandræðum með að ná vigt.
  • Brimage sankaði að sér 10 sigrum sem áhugamaður áður en hann gerðist atvinnumaður og er því reynslumeiri en bardagaskorið hans segir til um.
Vísir og MMA Fréttir starfa saman í umfjöllun um MMA. Ekki gleyma að setja "like" við Facebook síðu þeirra hér. 



MMA

Tengdar fréttir

UFC 175: Chris Weidman og ameríski draumurinn

UFC meistarinn í millivigt, Chris Weidman, ver titil sinn í annað skipti næsta laugardagskvöld á móti fyrrverandi meistara í léttþungavigt, Lyota Machida.

UFC 175: Lyoto Machida drekkur eigið þvag

Næstkomandi laugardagskvöld mun Lyoto Machida skora á millivigtarmeistara UFC, Chris Weidman, í aðalbardaga UFC 175. Machida er með sterkan bakgrunn í karate og drekkur eigið þvag af heilsufarsástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×