Innlent

Mikill meirihluti styður kjarabaráttu lækna

Atli Ísleifsson skrifar
Kjarabarátta lækna nýtur meiri stuðnings meðal kvenna en karla, en ríflega 85 prósent kvenna styðja hana samanborið við 71 prósent karla.
Kjarabarátta lækna nýtur meiri stuðnings meðal kvenna en karla, en ríflega 85 prósent kvenna styðja hana samanborið við 71 prósent karla. Vísir/Vilhelm
Rúmlega 78 prósent landsmanna styðja kjarabaráttu lækna samkvæmt nýrri netkönnun Capacent Gallup. Einn af hverjum tíu segist ekki styðja hana og ríflega 11 prósent hvorki styðja hana né ekki.

Í frétt Capacent Gallup segir að spurt hafi verið: „Kjaraviðræður standa yfir milli samninganefnda Læknafélags Íslands og ríkisins, og verkfallsaðgerðir standa yfir meðal lækna. Styður þú kjarabaráttu lækna eða styður þú hana ekki?“

Kjarabarátta lækna nýtur meiri stuðnings meðal kvenna en karla, en ríflega 85 prósent kvenna styðja hana samanborið við 71 prósent karla. „Íbúar höfuðborgar-svæðisins styðja kjarabaráttuna einnig frekar en íbúar landsbyggðarinnar, en nær 85% íbúa Reykjavíkur styðja hana á móti tæplega 72% íbúa landsbyggðarinnar. Einnig kemur fram munur á stuðningi fólks eftir aldri og eftir fjölskyldutekjum.

Talsverður munur er á stuðningi fólks eftir því hvað það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag og er stuðningur við kjarabaráttu lækna minnstur hjá þeim sem myndu kjósa Framsóknarflokk eða Sjálfstæðisflokk. Að sama skapi er stuðningurinn talsvert minni hjá þeim sem styðja ríkisstjórnina en þeim sem styðja hana ekki. Tæplega 65% þeirra sem styðja ríkisstjórnina styðja kjarabaráttu lækna en ríflega 87% þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina styðja kjarabaráttu lækna.“

Netkönnunin var gerð  dagana 13. til 20. nóvember 2014. Þátttökuhlutfall var 63,5 prósent, úrtaksstærð 1.453 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×