Skoðun

Sjávarútvegur hverra?

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Fjölbreytileiki sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi er mikill. Starfandi eru um tuttugu stór og öflug fyrirtæki, jafnvel samþætt í veiðum og vinnslu, sem mynda burðarás íslensks sjávarútvegs og útflutningstekna þjóðarinnar.

Þau eru víðs vegar um landið, skapa atvinnu og eru þjóðhagslega mjög mikilvæg. Rekstur þeirra gengur misjafnlega en mörgum hefur gengið afar vel undanfarin ár. En í umræðu um þessi stóru og stöndugu fyrirtæki gleymist oft að á Íslandi eru um 600 smærri sjávarútvegsfyrirtæki. Þau eru einnig þjóðhagslega mikilvæg, þótt með öðrum hætti sé. Þau gegna mikilvægu hlutverki með tilliti til byggða og fjölbreytts útgerðarmynsturs. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá eru, víða um land sveitarfélög sem nánast byggjast á þessum smáu fyrirtækjum og störfum þeim tengdum.

Umræðan um gjaldtöku og tekjur ríkissjóðs snýst ekki eingöngu um krónur og aura, heldur einnig hvernig byggð, víða um land, reiðir af. Ríkisstjórnin mun standa með fjölbreyttum sjávarútvegi.

Stærsti gallinn við álagningu veiðigjalda í dag er sá að þau eru meðaltalsgjöld sem leggjast jafn þungt á öll fyrirtæki, óháð rekstrarformi. Leiðin til framtíðar byggist annars vegar á aðgangsgjaldi sem öll fyrirtæki með aflaheimildir greiða, gjaldi sem er aðgangsgjald að auðlindinni og tekur eingöngu til veiða. Hins vegar á sérstökum tekjuskatti sem miðast við hagnað einstakra fyrirtækja, hagnað sem ætla má að komi til vegna forgangstækifæra fyrirtækjanna til aðgangs að auðlindinni og jafnvel vegna samþættrar starfsemi. Til framtíðar geta gjöld af sjávarútvegi ekki tekið mið af ríkisfjármálaáætlunum, áætlanir ríkisins þurfa að gera ráð fyrir sveiflum í tekjum af auðlindinni. Við viljum tryggja tekjur af sjávarútvegi til framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Verður þér að góðu?

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ,Hólmfríður Sigþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×