Sjálfstæðismenn hafa verið duglegir við að afneita orðum Ásmundar Friðrikssonar og telja að þau eigi enga samleið með flokknum. Innanríkisráðherra vill ekki ganga of hart fram í að gagnrýna Ásmund sjálfan en telur þó að hann hafi hlaupið á sig.
„Mér finnst hann hafa gengið allt of langt, ef ég segi alveg eins og er. Við búm hér í lýðræðislegu samfélagi, opnu frjálsu samfélagi þar sem réttindi borgaranna eru í hávegum höfð og mér finnst ekki koma til greina að tala með þessum hætti ef ég segi það bara hreint út,“ segir Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.

„Að sjálfsögðu ekki. Það er engin heimild í fyrsta lagi að gera neitt slíkt og kemur auðvitað ekki til nokkurra mála að draga menn í hópa eins og þarna er gert.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins tók undir orð Ólafar í gær og sagði jafnframt að viðhorf Ásmundar endurspeglaði ekki afstöðu flokksins.
„Ég held að menn hafi talað mjög skýrt í þessu efni. Þetta er nokkuð sem að er byggt á misskilnigi hjá Ásmundi og ég held að það þurfi ekkert frekari vitnana við með það. Þú heyrir mína skoðun og skoðun annarra hefur líka komið fram skýrt. Ég held að við ættum bara að halda áfram,“ segir Ólöf.