Viðskipti innlent

Primera Air segist áskilja sér rétt til að höfða mál gegn ASÍ

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Flugvél frá Primera Air.
Flugvél frá Primera Air. Vísir/Hörður
Stjórnendur Primera Air segja yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands frá því fyrr í dag vera furðulega, óréttmæta og villandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá flugfélaginu sem send var fjölmiðlum í kvöld. Þar segir að ASÍ hafi ekki byggt ályktun sína á neinni sérstakri vitneskju, þekkingu eða staðreyndum.

Miðstjórn ASÍ mótmælti í dag harðlega því sem sambandið kallaði aðför Primera Air að réttindum launafólks. Sagði sambandið í ályktun að flugfélagið byggi starfsemi sína frá Íslandi „á grófum félagslegum undirboðum gagnvart áhöfnum þeirra flugvéla sem notaðar eru í rekstri félagsins“.

Primera hafnar ásökunum ASÍ og segir sambandið ekki hafa reynt að afla upplýsinga um starfsemina. „ASÍ hefur ekki sett sig í samband við Primera Air hvorki fyrr né síðar til að afla upplýsinga og sætir það furðu að það hafi ekki gerst þegar haft er í huga að skorað er á yfirvöld að stöðva  ólögmæta starfsemi,“ segir í yfirlýsingunni.

Í ályktun ASÍ kom fram að um kaup og kjör áhafna Primera Air fari samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum, hvort heldur litið er til laga um starfsmannaleigur eða laga um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands.

Flugfélagið segist hinsvegar ekki þurfa að greiða starfsfólki sínu laun miðað við kjarasamninga í þeim löndum þar sem bækistöðvar félagsins eru. „Primera flýgur frá  mörgum bækistöðvum í 6 löndum til 80 flugvalla og gæti orðið æði flókið ef kaup og kjör fylgdu ávallt bækistöð hverju sinni eins og ASÍ virðist ætla sé venjan í flugrekstri,“ segir í yfirlýsingunni. „Menn geta svo ímyndað sér hvernig stór erlend flugfélög með langdrægari flugvélar um allan heim færu að því að reka sína starfsemi.“

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að flugfélagið ásakanir ASÍ svo alvarlegar og ærumeiðandi að það áskilji sér rétt til leita réttar síns fyrir dómstólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×