Hofið verður 350 fermetrar að stærð og mun rúma um 250 manns. Miðað er við að framkvæmdum ljúki í lok septembermánaðar á næsta ári.
Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir um að ræða stærstu tímamót í sögu Ásatrúarfélagsins.

Athöfnin hófst klukkan 08:38 við upphaf sólmyrkvans og voru þá mynduð táknræn vébönd, kveikt á kertum í höfuðáttum og blótað til heilla staðarvættum. Þegar myrkvinn náði hámarki klukkan 09:37 var kveiktur eldur á þeim stað þar sem helgidómurinn mun rísa.
„Þarna getum við reist byggingu sem verður einkennisbygging í Reykjavík. Þetta verður fyrst og fremst safnaðarheimili, en við verðum líka með skrifstofuaðstöðu.“
Sólmyrkvanum lauk um 10:40 og þá var tekin fyrsta skóflustungan og svæðið og samkoman helguð.
Myndirnar hér að neðan tók ljósmyndarinn Silke Schurack.