Skoðun

Losun í París, lokun í Genf

Ögmundur Jónasson skrifar
Á sama tíma og fulltrúar heimsbyggðarinnar ræða hvernig hamla megi gegn losun gróðurhúsalofttegunda, koma fulltrúar TiSA-ríkjanna saman í Genf til að ræða hið gagnstæða; hvernig koma megi í veg fyrir að félagsleg sjónarmið standi í vegi fyrir markaðsvæðingu þess sem á TiSA-máli kallast „Environmental services“ eða umhverfistengd þjónustuviðskipti.

Klippt á lýðræðislegar rætur

TiSA er skammstöfun fyrir Trade in Services Agreement. Þessar fríverslunarviðræður spruttu upp úr GATS – General Agreement of Trade in Services – viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um þjónustuviðskipti og hófust þær formlega árið 2013 eftir að hlé hafði verið gert á GATS-viðræðunum vegna vaxandi andstöðu almennings og fátækustu ríkja heims.

GATS og TiSA eru af sama toga og ganga út á lýðræðisvana markaðsvæðingu. Annars vegar er hún óafturkræf. Ekki er hægt fyrir nýjar ríkisstjórnir að vinda ofan af skuldbindingum um markaðsvæðingu, sem forverarnir gáfu, nema eiga málssókn á hættu. Í annan stað byggja þessar málsóknir á gerðardómsréttarfari, það þýðir að ágreiningsmálum er ekki skotið til dómstóla í viðkomandi ríkjum heldur til gerðardóma með aðkomu alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta þýðir að klippt er á dómsvald sem á sér lýðræðislegar rætur.

Aðild Íslands að siðleysinu

Þessar TiSA-samningaviðræður eru siðlausar af tveimur ástæðum fyrir utan það sem hér var nefnt.

Annars vegar eru TiSA-viðræðurnar tilraun ríkari hluta heimsins til að komast að samkomulagi sem síðan verði þröngvað upp á hinn snauðari hluta. Þetta takmark hefur ekki verið farið í grafgötur með. Í skýrslu utanríkisráðherra Íslands í mars 2014 segir að vonast sé til að aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar „gerist aðilar að TiSA-samningnum þegar viðræðum er lokið“! Hér er vísað til allra 123 ríkjanna sem stóðu að GATS-viðræðunum.

Hins vegar eru TiSA-viðræðurnar ósiðlegar vegna leyndarinnar. Í TiSA-viðræðunum er meiningin að komast að samkomulagi undir leyndarhjúp um mál sem varða samfélagið allt.

Leikbrúður fjármagnsins

Fréttir af TiSA-viðræðunum nú eigum við enn og aftur Wikileaks að þakka. Í síðustu viku kom Wikileaks fréttum af leynimakkinu í Genf á framfæri. Athyglisvert er að lekinn hefur vakið miklu meiri athygli í þriðja heiminum en í okkar heimshluta þótt rökrétt væri að öll heimsbyggðin risi upp þegar alþjóðafjármagnið gerir lýðræðislega fulltrúa okkar að leikbrúðum sínum.

Samningsríkin í TiSA-viðræðunum eru ýmist talin 50 eða 23 eftir því hvort Evrópusambandsríkin eru talin öll sér eða litið á þau sem eina heild en þannig koma þau að þessum viðræðum. Ísland er þarna með á báti, sem áður segir, og var í fréttum í síðustu viku vísað í Noreg og Ísland sem tillöguríki um tiltekna þætti í þessum viðræðum án þess að nokkur opin umræða hafi farið fram um það hér á landi!

Varnaðarorð alþjóðasamtaka launafólks

Alþjóðasamtök starfsfólks í almannaþjónustu, Public Services International, PSI, hafa fylgst með þessum viðræðum eins og þau hafa getað og sagði Rosa Pavanelli, framkvæmdastjóri PSI, eftir að upplýsingarnar komu fram í síðustu viku, að með ólíkindum væri að heimurinn þurfi að reiða sig á Wikileaks um aðgang að upplýsingum um hvað ríkisstjórnir okkar eru að semja um á bak við tjöldin fyrir okkar hönd.




Skoðun

Sjá meira


×