Lífið

Nýr morgunþáttur á FM957: Kjartan Atli og Hjörvar verða með Brennsluna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hjörvar og Kjartan Atli fara í loftið föstudaginn 8. janúar.
Hjörvar og Kjartan Atli fara í loftið föstudaginn 8. janúar. Pjetur/baldur beck
„Þetta verður morgunþáttur með aðeins öðruvísi sniði en við höfum verið með að undanförnu,“ segir Ríkharð Óskar Guðnason, dagskrástjóri FM957, en þann 8. janúar hefur göngu sína nýr morgunþáttur á stöðinni sem mun bera nafnið Brennslan. Nýir umsjónamenn eru þeir Kjartan Atli Kjartansson og Hjörvar Hafliðason sem margir þekkja úr íþróttaheiminum.

„Ósk [Gunnarsdóttir] og Sverrir [Bergmann] voru í sínum síðasta þætti í morgun og þau hafa staðið sig alveg ótrúlega vel. Flestir morgunþættir lifa ekkert í mörg ár í einu en þau voru búin að gera frábæra hluti hér á stöðinni. Ég vil bara fá að nota tækifærið og þakka þeim fyrir ótrúlega góðan þátt.“

Kjartan Atli er umsjónamaður Dominos-körfuboltakvölds og Hjörvar er umsjónamaður Messunnar á Stöð 2 Sport.

„Þetta verður alls ekki einhver íþróttaþáttur, langt frá því. Ég held að þeir ætli ekki nokkurn skapaðan hlut að tala um íþróttir. Þetta verður svona þáttur sem mun tækla allt sem er í gangi á kaffistofum landsins og reyna gera það með aðeins öðruvísi hætti, kannski aðeins á kómískari hátt,“ segir Ríkharð en þeir félagar ætla að vera með allskonar skemmtilega fasta liði í þættinum.

Hafa aldrei fjallað um pólitík

„Þetta gæti orðið þáttur sem væri samblanda af Bítinu og Bylgjunni, Tvíhöfða og FM95BLÖ. Þessir strákar vilja vera ferskir og eru alltaf með puttana á púlsinum. FM957 er þannig stöð að við höfum aldrei verið að taka mikið á einhverjum pólitískum málum en þeir gæti hugsanlega tekið upp á því, en þeir myndu gera það á annan hátt og reyna ræða hlutina á skemmtilegan máta.“

Hann segir að árið 2016 líti gríðarlega vel út fyrir stöðina og verður dagskrágerðin aukin til muna.

„Við erum ekki bara spennt fyrir þessum nýja morgunþætti. Við erum að byrja með ákveðnar áherslubreytingar á nýju ári. Það eru stórir hlutir að fara gerast sem ég get ekki farið nánar út í. Ég get held ég fullyrt það að þetta verður okkar sterkasta dagskrá hingað til.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×