Erlent

Níu hafa látist það sem af er ári

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Langar biðraðir myndast nú við Ermarsundsgöngin vegna mikils eftirlits.
Langar biðraðir myndast nú við Ermarsundsgöngin vegna mikils eftirlits. nordicphotos/afp
Franska lögreglan sendi liðsauka að Ermarsundsgöngunum í gær til að stemma stigu við fjölda flóttamanna sem reyna að komast til Bretlands um göngin.

Níu flóttamenn sem hafa reynt að komast til Bretlands gegnum Ermarsundsgöngin hafa látist það sem af er ári. Síðasti flóttamaðurinn sem bættist í hóp hinna látnu var súdanskur maður á þrítugsaldri sem varð fyrir flutningabíl þegar hann reyndi að komast inn í göngin. Talið er að allt að 37.000 flóttamenn hafi gert tilraun til þess að komast yfir til Bretlands á árinu.

„Þetta ótrúlega flóttamannaástand hefur dramatískar afleiðingar. Ástandið í Calais endurspeglar ágreininginn og kreppuna sem eru nú að slíta í sundur samfélög sums staðar í heiminum,“ sagði Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, við blaðamenn í gær.

Flóttamenn sem breska ríkisútvarpið, BBC, náði tali af sögðu það líklegast til árangurs að ráðast að göngunum í stórum hópum, allt að 400 í einu.

Öryggisgæsla við göngin hefur verið stórefld upp á síðkastið. Girðingar hafa verið reistar og eftirlit með bílum sem ætla um göngin verið eflt. Eftirlitið hefur valdið því að biðraðir með allt að 3.600 bílum hafa myndast. Þá hafa flóttamenn klippt göt á girðingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×