Jeppe kemur til KR frá Stjörnunni þar sem hann hefur spilað frá því 2014 með stuttu stoppi í Danmörku seinni hluta þess tímabils. Hann skoraði sex mörk í níu leikjum fyrri hluta meistaraárs Stjörnunnar fyrir tveimur árum síðan.
Sjá einnig:Jeppe fer frá Stjörnunni: „Finnst ég eiga skilið að spila meira“
Daninn skoraði átta mörk í 21 leik á síðasta tímabili en hefur aðeins byrjað tvo af tíu deildarleikjum Stjörnunnar í Pepsi-deildinni í ár og ekki spilað nema sjö þeirra.

Hann var mjög ósáttur við spiltíma sinn í Garðabænum og sagði í viðtali við Vísi fyrr í vikunni: „Ég er í betra standi núna en nokkru sinni fyrr og mér finnst ég eiga skilið að spila meira. Það hefur komið mér á óvart hvað ég spila lítið og ég fæ varla tækifæri og í raun er þetta bara frekar furðulegt.“
Samkvæmt heimildum Vísis höfðu Víkingur Ólafsvík, ÍBV, Keflavík og fleiri lið áhuga á að fá þennan öfluga framherja í sínar raðir en hann fær nú þá ábyrgð að rífa upp markaskorun í vesturbænum sem hefur verið af skornum skammti.
KR er aðeins búið að skora átta mörk í Pepsi-deildinni í sumar eða fæst allra liða. Samkeppnin um einu framherjastöðuna er mikil hjá KR með þá Hólmbert Aron Friðjónsson og Morten Beck Andersen í hópnum en hvorugur þeirra hefur skorað mark í deild eða bikar í sumar.
Báðir hafa þó komist á blað í forkeppni Evrópudeildarinnar og skoraði Morten Beck Andersen tvö mörk í mögnuðu 3-3 jafntefli KR gegn Grasshoper frá Sviss í gær.
Fyrsti leikur Jeppe Hansen fyrir KR verður væntanlega á sunnudagskvöldið þegar liðið heimsækir Fylki í sex stiga fallbaráttuslag.
Jeppe Hansen er gengin til liðs við KR og verður hjá okkur út tímabilið 2017 pic.twitter.com/K7GwGgmZ1f
— KR Reykjavik FC (@KRreykjavik) July 15, 2016