
Mun norskt genaregn eyðileggja íslenska laxinn?
Norskur eldislax er ræktaður stofn, með aðra erfðasamsetningu en villtur lax. Með kynbótum í fjölda kynslóða var valið fyrir eiginleikum sem gera hann heppilegan í eldi, t.d. stærð, kynþroska og vaxtarhraða. Á Íslandi hófust kynbætur á laxi á síðustu öld, en þeim var hætt þegar ljóst var að norski laxinn óx mun hraðar og betur. Allur eldislax hérlendis er norskur að uppruna.
Kynbætur breyta erfðasamsetningu tegunda. Ákveðin gen, sem eru fátíð í villtum laxi, jukust í tíðni við ræktun eldislaxins. Því er hann erfðafræðilega frábrugðinn villtum stofnum í Noregi og á Íslandi. Norskir erfðafræðingar skoðuðu í fyrra erfðabreytileika í 4.500 genum í villtum laxi og eldislaxi. Út frá þessum upplýsingum mátu þeir erfðamengun í villtum stofnum. Rannsóknin náði til rúmlega 20.000 fiska í 125 ám, frá Suður-Noregi til Finnmerkur. Þeir fundu ákveðnar erfðasamsætur sem einkenna eldislax og athuguðu hvort þær mætti finna í villtum laxastofnum og hversu algengar þær væru. Þannig var hægt að meta erfðablöndun í hverjum villtum stofni, á skalanum 0 til 100 prósent.
Niðurstöðurnar eru skýrar. Einungis þriðjungur stofnanna (44 af 125) var laus við erfðamengun. Annar þriðjungur stofnanna (41) bar væg merki erfðablöndunar, þ.e. innan við 4% erfðamengun, og þriðji parturinn (40) sýndi mikla erfðablöndun (þ.e. yfir 4%).
Sláandi er að 31 stofn var með 10% erfðamengun eða meiri. Flestir menguðustu stofnanir voru á vesturströndinni þar sem flestar fiskeldisstöðvar eru. Mikið mengaðir stofnar fundust einnig syðst og nyrst í Noregi. Vísindamennirnir reyndu ekki að meta áhrif erfðamengunar á lífvænleika stofnanna, en aðrar rannsóknir benda til þess að þau séu neikvæð. Ástæðan er sú að villtir stofnar sýna margháttaða aðlögun að umhverfi sínu, í tilfelli laxa bæði að ferskvatni og sjógöngu. Eldisdýr eru valin fyrir ákveðna eiginleika, og viðbúið að þau standi sig illa í villtri náttúru (hvernig spjara alisvín sig í Heiðmörk?). Eldislaxar hafa minni hæfni í straumvatni eða sjógöngu. Sama má segja um afkvæmi sem þeir eignast með villtum fiski.
Erfðamengun byggist á genaflæði á milli hópa. Genaflæði er eðlilegur hluti af stofnerfðafræði villtra tegunda, en þegar genaflæði er frá ræktuðu afbrigði í villta tegund er hætta á ferðum. Hættan er sérstaklega mikil þegar ræktaði stofninn er miklu stærri en sá villti. Það er einmitt tilfellið í Noregi. Þar er um 2.000 sinnum meira af laxi í eldisstöðvum en í villtum ám. Þótt ólíklegt sé að eldisfiskur sleppi, eru stöðvarnar það margar að strokufiskar eru hlutfallslega margir miðað við villta laxa. Meðalfjöldi strokulaxa sem veiddir eru í norskum ám er um 380.000 á ári. Ef stór hluti hrygnandi fisks í á er eldisfiskur, er hætt við að erfðafræðilegur styrkur staðbundna stofnsins minnki.
Er hætta á að genamengun frá norskum eldisfiski spilli íslenskum laxi? Því miður er hættan umtalsverð. Villtir íslenskir og norskir laxar eru ekki eins, því að a.m.k. 10.000 ár eru síðan sameiginlegur forfaðir þeirra nam straumvötn sem opnuðust að lokinni ísöldinni. Munurinn endurspeglar að einhverju leyti sögu stofnanna og ólíka aðlögun að norskum og íslenskum ám. Eldislaxinn er lagaður að norskum aðstæðum og eldi, og hætt er við að blendingar hans og íslenskra fiska hafi minni hæfni við íslenskar aðstæður.
Í ljósi víðtækra hugmynda um aukið laxeldi, t.d. á Vestfjörðum, er eðlilegt að kalla eftir varúð og vandaðri vísindalegri úttekt á hættunni á erfðablöndun, ekki bara á innfjörðum heldur einnig á Vestur- og Norðurlandi. Öruggasta eldið er í lokuðum kerfum, sem eru að ryðja sér til rúms erlendis, og mun auðvelda fiskeldisfyrirtækjum að fá vottun fyrir umhverfisvæna framleiðslu.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Skoðun

Það er kominn tími til...
Birgir Rúnar Davíðsson skrifar

Er EES samningurinn gagnlaus fyrir Ísland?
Sigurbjörn Svavarsson skrifar

Er píptest rót alls ills?
Davíð Már Sigurðsson skrifar

Vertu bandamaður kæri bróðir!
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Frá frammistöðuvæðingu til farsældar
Helga Þórey Júlíudóttir skrifar

Ísland á að verja með íslenskum lögum
Arnar Þór Jónsson skrifar

Fyrsta skrefið í átt að betri Menntasjóði
Logi Einarsson skrifar

Læknafélagið virðir ekki afstöðu félagsmanna sinna
Bjarni Jónsson skrifar

Göngum í takt
skrifar

Hverju lofar þú?
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir skrifar

Það er vá fyrir dyrum - Börnin okkar
Svava Þ. Hjaltalín skrifar

Hvert er eðli innflutningtolla? – Hvað er Trump eiginlega að gera? - Hverjir munu líða mest?
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Sagnaarfur Biblíunnar - Babýlonherleiðingin og örlög smáþjóða í átökum heimsvelda
Sigurvin Lárus Jónsson skrifar

Fjölgun hjartasjúkdóma og aukið álag á spítalana í boði Carnivore bylgjunnar?
Guðrún Nanna Egilsdóttir,Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Allt að vinna, engu að tapa!
Helga Rakel Rafnsdóttir,Margrét M. Norðdahl skrifar

Fiskurinn í blokkunum
Yngvi Ómar Sigrúnarson skrifar

Snýst núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar um öryggi… eða mögulega eitthvað annað
Daði Rafnsson ,Kristján Vigfússon ,Margrét Manda Jónsdóttir skrifar

Þegar vald óttast þekkingu
Halla Sigríður Ragnarsdóttir skrifar

Með hjúkkuna upp í rúm og lækninn í vasanum
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Hverjir eiga Ísland?
Jón Baldvin Hannibalsson skrifar

Komum náminu á Höfn í höfn
Halla Hrund Logadóttir skrifar

Betra líf eftir greiningu krabbameins, tímamótarannsókn sem vísar veginn
Sigríður Gunnarsdóttir skrifar

Veiðigjöld vs afnám undanþágu orkumannvirkja frá fasteignamatsskyldu
Guðmundur Haukur Jakobsson skrifar

Tollar – Fyrir hverja?
Valdimar Birgisson skrifar

Þau eru fá en þörfin er stór
Sif Huld Albertsdóttir skrifar

Samvinnufélög, valkostur í atvinnurekstri
Elín H. Jónsdóttir,Guðrún Johnsen skrifar

Leiðin til helvítis
Jón Pétur Zimsen skrifar

Eitruð kvenmennska
Ása Lind Finnbogadóttir skrifar

Hinn nýi íslenski aðall
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Samningur HSÍ við Rapyd – Opið bréf til frambjóðenda í formannskjöri
Hópur stuðningsmanna Íslands í handbolta skrifar