Einn þeirra sem bíður óþreyjufullur eftir því að Katla gjósi er einn ástsælasti fréttamaður og skemmtikraftur þjóðarinnar, Ómar Ragnarsson.
„Ég er eiginlega sonur Kötlu,“ segir Ómar þegar blaðamaður byrjar að spjalla við hann um komandi Kötlugos og vitnar svo í ættartengsl sín við nálæga staði og ömmu sína og afa sem þekktu vel til máttar Kötlu. Ómar segir að hann sé alltaf í viðbragðsstöðu. Hann stefnir á að vera fyrstur á vettvang þegar Katla byrjar að gjósa og nefnir hann að þetta sé eiginlega í fyrsta skipti sem hún hreyfi sig almennilega núna undanfarið.

„Ég er alltaf tilbúinn til ferðar, annað hvort fljúgandi eða á jöklabíl, hvert sem er og í marga daga,“ segir Ómar og bendir á að hann eigi þrjá tilbúna Kötlubíla, fulla af vistum, en þó sé best að vera á flugi í svona aðstæðum. Vistirnar eru meðfærilegar og duga honum í nokkra daga.
„Það eru margir sem skilja ekki af hverju ég er alltaf með þetta drasl með mér,“ segir Ómar og bendir á að það sé nauðsynlegt í hans starfi að vera alltaf með puttann á púlsinum og alltaf tilbúinn.
„Þetta er bara svona, þetta er mjög sérkennilegur lifnaðarháttur en ég hef alltaf verið á vakt, alla daga,“ segir Ómar.

Elsti Kötlubíllinn er 43 ára gamall jöklabíll. Allir Kötlubílarnir eiga sér sína sögu og hefur Ómar eitt ófáum klukkustundum í þeim. Einn þeirra nefnir hann minnsta jöklabíl í heimi og segir hann þann bíl fljóta ofan á snjónum.
„Ég er búin að sofa sem samsvarar mörgum mánuðum í þessum bílum,“ nefnir Ómar og metnaður hans skín í gegn. Aðspurður hvað hann geri ef Katla gjósi í nótt svarar Ómar að þá sé hann illa staddur þar sem hann sé á Akureyri en hins vegar sé hann með fullan bílinn af búnaði og tilbúinn í jöklaferðir hvenær sem er.
Ómar er hvað þekktastur fyrir að vera alltaf mættur fyrstur á staðinn þegar móðir náttúra sýnir mátt sinn. Sama hverjar aðstæðurnar eru þá er Ómar mættur á svæðið og á hann heiðurinn af einu verðmætasta myndefni sem sögur fara af. Hér má til dæmis nefna myndefni hans af Kröflugosinu 1984 en þar má sjá jörðina klofna í tvennt og hið raunverulega Ísland brýst fram.