Innlent

Fyrrverandi formaður Félags múslima fékk skilorð og sekt fyrir meiriháttar skattabrot

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sverrir Agnarsson var formaður Félags múslima á Íslandi, árin 2011 til 2015.
Sverrir Agnarsson var formaður Félags múslima á Íslandi, árin 2011 til 2015. vísir/valli
Sverrir Agnarsson, fyrrverandi formaður Félags múslima á Íslandi, hefur verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir skattalagabrot.

Sverrir á að greiða 62,5 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs. Tíu mánaða fangelsi kemur í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Sverrir játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Honum var gert að sök að hafa ekki staðið skil á skattframtölum einkahlutafélags síns gjaldárin 2012 og 2013, skilað efnislega rangri virðisaukaskattskýrslu fyrir mars-apríl 2011 og ekki staðið skil á skýrslum frá þeim tíma til ársloka 2013.

Þá var Sverrir sakfelldur fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að láta undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald félagsins fyrir rekstrarárin 2011-2013. Þá skilaði hann efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2012 og stóð eigi skil á framtölum fyrir gjaldárin 2013 og 2014.

Vantaldar tekjur á tímabilinu voru alls tæplega 30 milljónir króna.

Jóhannes Albert Kristbjörnsson, verjandi Sverris, segir að það komi til greina að áfrýja dómnum í von um að refsingin verði milduð. Engin ákvörðun hafi þó verið tekin um slíkt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×