Epalhomminn, fitubollan og okkar innra tröll Sif Sigmarsdóttir skrifar 11. mars 2017 07:00 Við erum öll tröll. Að minnsta kosti ef marka má nýjustu rannsóknir. Í vikunni voru kynntar niðurstöður rannsókna tölvunarfræðinga við Stanford og Cornell háskólana á svo kölluðum internet tröllum. Flest ímyndum við okkur þennan ófögnuð internetsins – kakkalakka rökræðulistarinnar – sem hóp andfélagslegra siðblindingja sem hírast í myrkum kjallaraholum, rækta hampjurtir í pottum og reiði í hjartanu, næra hatur sitt á köldum pitsu-sneiðum og volgu Pepsi Maxi og fara sjaldan í sturtu. En svo er ekki. Í ljós kemur að „atvinnu“ tröll bera aðeins ábyrgð á litlum hluta þeirra andstyggilegu athugasemda sem sliga nú veraldarvefinn. Meirihluti illkvittinna ummæla, rógburðar, hótana og almennrar hatursspýju er runninn undan rifjum fólks sem aldrei hefur brugðið sér í slíkt tröllslíki áður. Þetta er venjulegt fólk; ég og þú.Eins og dómínókubbar Á sama tíma og trölla-rannsóknin var kynnt breyttist allt Ísland í lifandi vitnisburð um sannleiksgildi niðurstöðu hennar. Ráðstefnan Truflandi tilvist var haldin um síðustu helgi þar sem fulltrúar hinna ýmsu jaðarhópa komu saman, ræddu um fordóma og leituðust við að svara spurningunni „hvað á hinsegin fólk, fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna og feitt fólk sameiginlegt?“ Inntak ráðstefnunnar féll hins vegar í skugga sjónvarpsviðstals sem átti sér stað í kjölfar hennar. Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, einn gesta ráðstefnunnar, var fengin í viðtal í fréttatíma Stöðvar 2. Spyrillinn, Sindri Sindrason, spurði Töru hvort fordómar væru stundum ekki að einhverju leyti inni í okkur sjálfum. Tara brást við með því að segja orð hans vera töluð úr munni einhvers í forréttindastöðu. Í kjölfarið benti fréttamaðurinn á að hann tilheyrði fjölda jaðarhópa: Hann væri samkynhneigður, hefði ættleitt hörundsdökkt barn og væri giftur útlendingi. Viðtalið vekur upp margar áhugaverðar spurningar. Sem dæmi: Starf fréttamanns krefst þess oft að hann gerist holdgervingur andstæðra sjónarmiða er hann leggur spurningar fyrir viðmælanda en þannig kemur hann af stað rökræðum. Eru margir sem halda að spurningar fréttamanna endurspegli skoðanir þeirra sjálfra? Ef maður tilheyrir ekki þeim hópi sem rætt er um, er maður þá ófær um að skilja hann? Og að lokum: Getur einkalíf fréttamanns verið rök í umræðum sem hann stýrir? Engin þessara spurninga lét þó á sér kræla í kjölfar viðtalsins. Allt rökrænt innihald var kæft þegar við kvað hatursfyllsta og ómálefnalegasta tröllagarg sem heyrst hefur í langan tíma. Vandlæting á báða bóga ætlaði að kollvarpa internetinu er heilvita manneskjur féllu ein af annarri eins og dómínókubbar og urðu að ósvífnustu internettröllum. Sindri var í háði kallaður „aumingja kúgaði, hvíti, ófatlaði Epalhomminn með alla sjónvarpsþættina“. Tara var sögð fitubolla með fötlunarrembu.Þriggja spurninga reglan Stóra forréttindamálið segir í raun lítið um Töru Margréti eða Sindra. Tara hefði kannski ekki átt að ganga út frá því að Sindri væri sjálfkrafa forréttindapési vegna þess eins að hann er hvítur karlmaður í vel sniðnum jakkafötum – það eru fordómar. Og Sindri hefði ekki átt að láta slá sig út af laginu. En hver hefur ekki sagt eitthvað klaufalegt í hita leiksins? Málið segir hins vegar heilmikið um okkur hin. Fjölmiðlar um heim allan hafa lokað athugasemdakerfum sínum vegna þeirrar hatursfullu umræðu sem á sér þar stað. Norska ríkisútvarpið NRK hyggst hins vegar fara aðra leið. Til að sporna gegn tröllum ætlar miðillinn að láta lesendur svara þremur spurningum áður en þeir fá að tjá sig um fréttir á vefsíðu hans. Spurningunum er annars vegar ætlað að tryggja að fólk skilji innihald frétta hyggist það tjá sig um þær og hins vegar að gefa fólki smá tíma til að róa sig niður áður en það lætur vaða. Kannski að við ættum öll að taka upp þriggja spurninga regluna. Áður en við hreytum næst úr okkur stafrænum ókvæðisorðum ættum við að spyrja sjálf okkur: 1) Hef ég myndað mér upplýsta skoðun á málinu? 2) Myndi ég láta sömu orð falla í áheyrn mömmu, pabba eða barnsins míns? 3) Er þetta nokkuð mitt innra tröll sem talar? Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Það er þér að kenna að þú eigir ekki fyrir útborgun á íbúð Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Alvarleg staða á Reykjavíkurflugvelli - þolinmæði á þrotum Matthías Sveinbjörnsson Skoðun Hlutfall íbúa í hverri íbúð að breytast Ágúst Bjarni Garðarsson Skoðun Það borgar sig að bíða Hildur Eiríksdóttir Skoðun Hvers vegna hafa Svíar ekki tekið upp evruna? Júlíus Valsson Skoðun Hlustum á starfsfólk ríkisins Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir Skoðun Ögn um Vigdísarþætti Hallgrímur Helgi Helgason Skoðun Heilbrigðismál í stjórnarsáttmála – hvað vantar? Sandra B. Franks Skoðun Frá rafvæðingu til vitvæðingar – framfaraöldin sem ruddi brautina til farsællar framtíðar Árni Sigurðsson Skoðun
Við erum öll tröll. Að minnsta kosti ef marka má nýjustu rannsóknir. Í vikunni voru kynntar niðurstöður rannsókna tölvunarfræðinga við Stanford og Cornell háskólana á svo kölluðum internet tröllum. Flest ímyndum við okkur þennan ófögnuð internetsins – kakkalakka rökræðulistarinnar – sem hóp andfélagslegra siðblindingja sem hírast í myrkum kjallaraholum, rækta hampjurtir í pottum og reiði í hjartanu, næra hatur sitt á köldum pitsu-sneiðum og volgu Pepsi Maxi og fara sjaldan í sturtu. En svo er ekki. Í ljós kemur að „atvinnu“ tröll bera aðeins ábyrgð á litlum hluta þeirra andstyggilegu athugasemda sem sliga nú veraldarvefinn. Meirihluti illkvittinna ummæla, rógburðar, hótana og almennrar hatursspýju er runninn undan rifjum fólks sem aldrei hefur brugðið sér í slíkt tröllslíki áður. Þetta er venjulegt fólk; ég og þú.Eins og dómínókubbar Á sama tíma og trölla-rannsóknin var kynnt breyttist allt Ísland í lifandi vitnisburð um sannleiksgildi niðurstöðu hennar. Ráðstefnan Truflandi tilvist var haldin um síðustu helgi þar sem fulltrúar hinna ýmsu jaðarhópa komu saman, ræddu um fordóma og leituðust við að svara spurningunni „hvað á hinsegin fólk, fatlað fólk, fólk af erlendum uppruna og feitt fólk sameiginlegt?“ Inntak ráðstefnunnar féll hins vegar í skugga sjónvarpsviðstals sem átti sér stað í kjölfar hennar. Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, einn gesta ráðstefnunnar, var fengin í viðtal í fréttatíma Stöðvar 2. Spyrillinn, Sindri Sindrason, spurði Töru hvort fordómar væru stundum ekki að einhverju leyti inni í okkur sjálfum. Tara brást við með því að segja orð hans vera töluð úr munni einhvers í forréttindastöðu. Í kjölfarið benti fréttamaðurinn á að hann tilheyrði fjölda jaðarhópa: Hann væri samkynhneigður, hefði ættleitt hörundsdökkt barn og væri giftur útlendingi. Viðtalið vekur upp margar áhugaverðar spurningar. Sem dæmi: Starf fréttamanns krefst þess oft að hann gerist holdgervingur andstæðra sjónarmiða er hann leggur spurningar fyrir viðmælanda en þannig kemur hann af stað rökræðum. Eru margir sem halda að spurningar fréttamanna endurspegli skoðanir þeirra sjálfra? Ef maður tilheyrir ekki þeim hópi sem rætt er um, er maður þá ófær um að skilja hann? Og að lokum: Getur einkalíf fréttamanns verið rök í umræðum sem hann stýrir? Engin þessara spurninga lét þó á sér kræla í kjölfar viðtalsins. Allt rökrænt innihald var kæft þegar við kvað hatursfyllsta og ómálefnalegasta tröllagarg sem heyrst hefur í langan tíma. Vandlæting á báða bóga ætlaði að kollvarpa internetinu er heilvita manneskjur féllu ein af annarri eins og dómínókubbar og urðu að ósvífnustu internettröllum. Sindri var í háði kallaður „aumingja kúgaði, hvíti, ófatlaði Epalhomminn með alla sjónvarpsþættina“. Tara var sögð fitubolla með fötlunarrembu.Þriggja spurninga reglan Stóra forréttindamálið segir í raun lítið um Töru Margréti eða Sindra. Tara hefði kannski ekki átt að ganga út frá því að Sindri væri sjálfkrafa forréttindapési vegna þess eins að hann er hvítur karlmaður í vel sniðnum jakkafötum – það eru fordómar. Og Sindri hefði ekki átt að láta slá sig út af laginu. En hver hefur ekki sagt eitthvað klaufalegt í hita leiksins? Málið segir hins vegar heilmikið um okkur hin. Fjölmiðlar um heim allan hafa lokað athugasemdakerfum sínum vegna þeirrar hatursfullu umræðu sem á sér þar stað. Norska ríkisútvarpið NRK hyggst hins vegar fara aðra leið. Til að sporna gegn tröllum ætlar miðillinn að láta lesendur svara þremur spurningum áður en þeir fá að tjá sig um fréttir á vefsíðu hans. Spurningunum er annars vegar ætlað að tryggja að fólk skilji innihald frétta hyggist það tjá sig um þær og hins vegar að gefa fólki smá tíma til að róa sig niður áður en það lætur vaða. Kannski að við ættum öll að taka upp þriggja spurninga regluna. Áður en við hreytum næst úr okkur stafrænum ókvæðisorðum ættum við að spyrja sjálf okkur: 1) Hef ég myndað mér upplýsta skoðun á málinu? 2) Myndi ég láta sömu orð falla í áheyrn mömmu, pabba eða barnsins míns? 3) Er þetta nokkuð mitt innra tröll sem talar? Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Frá rafvæðingu til vitvæðingar – framfaraöldin sem ruddi brautina til farsællar framtíðar Árni Sigurðsson Skoðun
Frá rafvæðingu til vitvæðingar – framfaraöldin sem ruddi brautina til farsællar framtíðar Árni Sigurðsson Skoðun