Skallagrímur sótti sigur í Sláturhúsið í Keflavík í sínum fyrsta leik í sögu félagsins í úrslitakeppni kvenna og tveir leikmenn liðsins voru ekki að taka þátt í svo vel heppnaðri frumsýningu í fyrsta skiptið.
Stjörnukonur höfðu tapað sínum fyrsta leik í Stykkishólmi kvöldið áður en nýliðarnir úr Borgarnesi hafa heldur betur stimplað sig inn í kvennakörfunni í vetur.
Skallagrímur varð í gær fimmtánda félagið sem nær að spila leik í úrslitakeppni kvenna í körfubolta þegar liðið vann dýrmætan sigur á Litlu slátrurunum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna.
Skallagrímur er aðeins þriðja félagið frá 1994 sem nær að vinna sinn fyrsta leik í úrslitakeppni en hin eru lið Breiðabliks frá árinu 1995 og lið Hamars frá árinu 2009.
Keflavík, Grindavík, KR og ÍR tóku þátt í fyrstu úrslitakeppninni árið 1993 en frá og með 1994 hafa síðan ellefu félög bæst í hópinn þar af tvö þeirra, Stjarnan og Skallagrímur, í úrslitakeppninni í ár.
Þegar Skallagrímur vann Keflavík í gær voru liðin átta ár frá því að félag vann sinn fyrsta leik í sögu úrslitakeppni kvenna eða síðan að Hamar vann Val í 1. umferð úrslitakeppninnar 2009.
Svo skemmtilega vill til að tveir leikmenn hjálpuðu bæði Skallagrími og Hamar að vinna þessa leiki.
Fanney Lind Guðmundsdóttir Thomas (15 stig 2009 og 4 stig 2017) og Jóhanna Björk Sveinsdóttir (2 stig 2009 og 4 stig 2017) voru í sigurliði í báðum tilfellunum. Þær tvær þekkja það því vel að vinna frumsýningarleikinn í úrslitakeppni.
Fyrsti leikur félaga í úrslitakeppni kvenna 1993-2017
Fyrsta úrslitakeppnin
Keflavík 1993 - Sigur (75-64 á Grindavík)
Grindavík 1993 - Tap (64-75 fyrir Keflavík)
KR 1993 - Sigur(63-29 sigur á ÍR)
ÍR 1993 - Tap (29-62 fyrir KR)
Úrslitakeppnirnar eftir það
Tindastóll 1994 - Tap (82-95 fyrir Keflavík)
Breiðablik 1995 - Sigur(59-48 á KR)
ÍS 1997 - Tap (36-60 fyrir KR)
KFÍ 2001 - Tap (67-79 fyrir Keflavík)
Njarðvík 2003 - Tap (62-87 fyrir Keflavík)
Haukar 2005 - Tap (70-71 fyrir Grindavík)
Hamar 2009 - Sigur (72-63 á Val)
Valur 2009 - Tap (63-72 fyrir Hamar)
Snæfell 2010 - Tap (82-95 fyrir Keflavík)
Stjarnan 2017 - Tap (78-93 fyrir Snæfelli)
Skallagrímur 2017 - Sigur (70-68 á Keflavík)
