Innlent

Allir í spreng í Útvarpshúsinu

Jakob Bjarnar skrifar
Vart má á milli sjá hvort óvirk klósett eða kaffileysi fari meira fyrir brjóstið á RUV-urum.
Vart má á milli sjá hvort óvirk klósett eða kaffileysi fari meira fyrir brjóstið á RUV-urum. Vísir/Ernir
Neyðarástand ríkir nú í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Kaldavatnið er farið af húsinu en gröfumenn tóku í sundur leiðslu í framkvæmdum sem eru við húsið, eftir að RUV ohf seldi bita af lóð sinni til að fjármagna starfsemina.

Ekkert kalt vatn er í klósetti né vöskum. Þetta kom fram í orðsendingu sem starfsmenn RUV fengu í morgunsárið og var ekki vitað hvenær viðgerð lýkur. Við frekari eftirgrennslan, þá samkvæmt samtali við Orkuveituna, er talið að viðgerð geti tekið allt að fjóra tíma. Starfsmenn RUV eru um 300 auk þess sem Reykjavíkurborg er með starfsemi í húsinu, á efri hæðum.

RUV-arar verða því að halda í sér, því klósettin í húsinu eru ekki virk. Nema menn bregði sér út undir húsvegg að gömlum góðum sið. Í samtali við ónefndan RUV-ara er það þó ekki síst sú staðreynd að vatnsleysið gerir allar kaffivélar óvirkar. „Menn reita hár sitt og skegg,“ segir starfsmaðurinn. Þetta setur alla starfsemi í uppnám. Hlustendur útvarpsrása Ríkisútvarpsins ættu því ekki láta sér það koma á óvart þó gremju gæti í tóni útvarpsfólksins á öldum ljósvakans.

Uppfært klukkan 13:30

Tveir ferðakamrar hafa verið settir upp til að hjálpa þeim sem brátt er í brók á meðan kalda vatnsins nýtur ekki við.

Þessir kamrar eru komnir til að bjarga málunum í Efstaleiti.Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×