Innlent

Mygla í Héraðsdómi Reykjavíkur

Snærós Sindradóttir skrifar
Myglan fannst meðal annars á skrifstofu dómstjóra.
Myglan fannst meðal annars á skrifstofu dómstjóra. Vísir/Vilhelm
Mygla hefur fundist í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur, meðal annars á skrifstofum dómara. Stutt er síðan velferðarráðuneytið flutti vegna myglu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

„Það á að fara í endurnýjun á fimmtu hæðinni í húsinu í sumar, og stóð til að gera það hvort sem er. Í tilefni þess ákváðum við að taka sýni og athuga hvort þar væri einhver óværa því menn töldu sig hafa fundið einkenni og slíkt,“ segir Friðrik Þ. Stefánsson, rekstrar- og mannauðsstjóri dómsins.

Sérstaklega mikil mygla var á skrifstofu dómstjórans Ingimundar Einarssonar sem hefur verið í námsleyfi frá áramótum. Eftir því sem næst verður komist hefur enginn þurft að fara í veikindaleyfi vegna einkenna frá myglunni.

„Við höfum svo sem ekkert enn um umfangið á þessu. Við höfum líka ekkert í höndunum sem tengir þetta heilsufari fólks. Þetta er mjög einstaklingsbundið og fólk er misútsett fyrir þessu.“

Til stendur að ræða málið hjá Fasteignum ríkissjóðs og taka í kjölfarið ákvörðun um framhaldið.

„Við erum komin í gang með að laga þar sem við vitum að mælist mygla en erum ekki búin að marka okkur neina stefnu um það hversu langt sú skoðun nær. Við viljum helst fá að ganga úr skugga um að þetta sé allt saman í lagi,“ segir Friðrik. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×