Innlent

Matsmenn finni sökudólginn í myglumálinu hjá Orkuveitunni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Viðgerðir á Orkuveituhúsinu hófust í fyrra. Nú þurfa starfsmenn að þjappa sér fyrir næsta áfanga.
Viðgerðir á Orkuveituhúsinu hófust í fyrra. Nú þurfa starfsmenn að þjappa sér fyrir næsta áfanga. vísir/stefán
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ætlar að fá dómkvadda matsmenn til að kanna hvað fór úrskeiðis við byggingu höfuðstöðva fyrirtækisins á Bæjarhálsi og varð þess valdandi að mygla myndaðist í húsinu.

Viðgerðir á austurvegg byggingarinnar hafa þegar kostað Orkuveituna 300 milljónir króna. Með þeim átti að „freista þess að koma í veg fyrir þann leka sem var á þeim vegg og olli mygluskemmdum á húsinu“, segir í minnisblaði sem lagt var fyrir síðasta stjórnarfund fyrirtækisins.

Fram kemur að verið sé að hanna og undirbúa frekari viðgerðir á vestur­húsinu og að kostnaðar­áætlun liggi fyrir en verði ekki birt fyrr en viðgerðir hafa verið boðnar út og tilboð opnuð.

„Vegna fyrirhugaðra viðgerða á vesturhúsi mun húsið verða tæmt og starfsmönnum „þjappað“ saman í austurhúsi sem kostur er, en leigjendur og starfsmenn Gagnaveitu Reykjavíkur flytja tímabundið í leiguhúsnæði,“ segir í minnisblaðinu.

Orkuveitan vill að matsmennirnir kanni hvort „hönnun, efnisval, framkvæmd og frágangur hafi verið fullnægjandi og í samræmi við lög, reglur, viðurkennda framkvæmd og aðstæður“. Nú sé heppilegt að óska eftir dómkvaðningu matsmanna því nú sé búið að greina austurvegginn og gögn liggi fyrir sem þeir geti kannað.

Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn OR sögðust ítreka hálfs árs gamla fyrirspurn sína um hvort gerð hafi verið heildarúttekt á skemmdunum og kostnaði vegna þeirra og hver beri þann kostnað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×