Innlent

Borghildur Dóra leitar föður síns: „Mamma skilur að ég vilji finna hann“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Foreldrar Borghildar hittust á útihátíðinni í Atlavík um verslunarmannahelgi árið 1983. Árið eftir, 1984, tróð Bítillinn Ringo Starr upp á hátíðinni.
Foreldrar Borghildar hittust á útihátíðinni í Atlavík um verslunarmannahelgi árið 1983. Árið eftir, 1984, tróð Bítillinn Ringo Starr upp á hátíðinni.
Borghildur Dóra Björnsdóttir leitar nú að föður sínum sem hún hefur aldrei hitt. Móðir Borghildar hitti föður hennar aðeins einu sinni, á útihátíð um verslunarmannahelgi í Atlavík árið 1983, en þær mæðgur hafa ekki heyrt frá honum síðan.

Borghildur greindi frá stöðu sinni í Facebook-færslu nú í vikunni og óskaði þar eftir myndum og öðru slíku frá Atlavík hina tilteknu verslunarmannahelgi um árið. Færslan vakti mikla athygli og hlaut töluverða dreifingu á samfélagsmiðlum.



Rauðhærður, en með litað hár, og sagðist eiga fimm ára dóttur

Í samtali við Vísi segist Borghildur gáttuð á viðbrögðunum en hún hafi þó enn ekki fengið neinar frekari vísbendingar í kjölfar stöðuuppfærslunnar. Hún segir föður sinn hafa tjáð móður sinni umrætt kvöld að hann héti Jónas Haukur Sveinsson en nú er Borghildur jafnvel á því að hann hafi logið til um nafn sitt.

Allar upplýsingar sem Borghildur býr yfir um föður sinn fékk hún frá móður sinni, sem vill þó halda sér utan við málið eins og henni er framast unnt. „Mamma skilur að ég vilji finna hann en hún vill ekki mikið blanda sér í þetta sjálf,“ segir Borghildur, sem hefur ekki úr miklu að moða um föður sinn.

„Hann talaði við einhverja Hornfirðinga síðar um kvöldið, og hann sagðist vera frá Reykjavík. Þegar hann hitti vinkonu mömmu nokkrum árum síðar sagðist hann samt alltaf hafa búið á Akureyri. Hann sagðist eiga fimm ára dóttur á þessum tíma, sem hét Hulda, og hann sagðist einu sinni hafa verið giftur – en konan fór frá honum vegna þess að hann var rauðhærður,“ segir Borghildur af föður sínum í Atlavík.

Var tilkynnt um að hann ætti sex ára dóttur

Móðir Borghildar vildi auk þess koma þeim upplýsingum á framfæri að faðir Borghildar hefði verið á úthátíðinni í fylgd vinar síns. Faðirinn hefði verið hávaxinn og stuttklipptur, klæddur í svarta Adidas-skó, bláar gallabuxur og ljósgráa lopapeysu. Vinur hans hafi verið dökkhærður, hrokkinhærður og þybbinn. Þeir hafi verið á silfurgrárri Mözdu með bílnúmerið R 323 og gist í grænu tjaldi. Móðir Borghildar segir hafa kynnt sig sem „Dædu“ og þau hafi fyrst talast við á fjölskyldusvæði hátíðarinnar. Hún segir föður Borghildar hafa kynnt sig sem Jónas Hauk Sveinsson, húsgagnasmið, og hann hafi sagst vera búsettur hjá foreldrum sínum í Reykjavík.

Þá segir móðir Borghildar að vinkona sín hafi hitt föðurinn á Akureyri um sex árum eftir atburðinn, þar sem hann svaraði Hauksnafninu. Vinkonan hafi þetta kvöld tilkynnt honum að hann ætti sex ára dóttur.

Borghildur veit ekki til þess að neinar myndir séu til af kvöldinu umrædda í Atlavík en filma með myndum, sem móðir hennar tók það kvöld, eyðilagðist.

Hefur kannað alla möguleika

Í kjölfar stöðuuppfærslunnar í vikunni barst Borghildi fjöldi ábendinga um mann, sem ber sama nafn og Borghildur telur föður sinn bera. Hún er meðvituð um manninn og segir hann ekki föður sinn, langt sé síðan hún gekk úr skugga um það. Þá er töluvert síðan nokkrir menn voru sendir í faðernispróf.

„Það voru þrír menn sendir í blóðprufu á sínum tíma,“ segir Borghildur en enginn þeirra reyndist vera faðir hennar.

Færslu Borghildar má lesa hér að neðan en hún leitar enn logandi ljósi að upplýsingum um föður sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×