Innlent

Neituðu að ferðast með kvenkyns ökumanni

Gissur Sigurðsson skrifar
Skipt var um ökumann.
Skipt var um ökumann. vísir/ernir
Hópur ferðamanna sem voru íslamstrúar neitaði nýverið að aka í hópferðabíl þar sem kvenmaður var undir stýri og þurfti að skipta um ökumann. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu segir þetta óhæfu, íslensk jafnréttislög gildi hér á landi.

Konan sótti hópinn í Leifsstöð og ók með hann í Bláa lónið og síðan á hótel í Reykjavík. Síðan stóð til að fara í útsýnisferð í borgina og nágrenni en þá fyrst virðist fararstjórinn hafa áttað sig á því að kona ók bílnum.

Hann hafði þá þegar samband við erlenda ferðaskrifstofu sem hópurinn hafði keypt ferðina hjá og krafðist karlkyns ökumanns sem látið var eftir honum.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.Vísir/Valli
Enginn afsláttur gefinn

„Það gilda lög á Íslandi um jafnrétti kvenna og karla og þau ganga meðal annars út á það að konur hafi rétt til allra sömu starfa og karlar og öfugt. Þar á meðal að vera rútubílstjóri. Og það verður fólk sem kemur hingað að virða. Okkur er gert að fylgja reglum, til dæmis í Sádí-Arabíu eða Íran, að vera með slæður og fólk verður bara að gjöra svo vel að virða það, hvaða reglur gilda hér um starf karla og kvenna,“ segir Kristín. Enginn afsláttur sé gefinn af því. 

„Við erum líka bundin af mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og svo framvegis. Hér er sú hugmynd ríkjandi að konur og karlar eigi að hafa sömu möguleika og sömu réttindi,“ segir hún. 

Konan sem um ræðir vill ekki láta nafn síns getið en sagði í viðtali við fréttastofu að erlenda ferðaskrifstofan hafi beðið hana afsökunar á þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×