Innlent

Hafa þungar áhyggjur af alvarlegum trúnaðarbresti á Landspítalanum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eftir breytingarnar er rannsóknardeildum ekki stýrt af faglega ráðnum yfirlæknum, þ.e. viðurkenndum sérfræðingum í viðkomandi sérgrein læknisfræðinnar. Óttast er um öryggi sjúklinga á sjúkrahúsinu af þessum sökum
Eftir breytingarnar er rannsóknardeildum ekki stýrt af faglega ráðnum yfirlæknum, þ.e. viðurkenndum sérfræðingum í viðkomandi sérgrein læknisfræðinnar. Óttast er um öryggi sjúklinga á sjúkrahúsinu af þessum sökum Vísir/Vilhelm
Læknafélag Reykjavíkur lýsir yfir þungum áhyggjum vegna „alvarlegs trúnaðarbrests sem kominn er upp á milli yfirlækna og sérfræðilækna rannsóknastofa Landspítala og rekstrarstjórnenda Landspítala.“  

Fram kemur í ályktun, sem samþykkt var á aðalfundi Læknafélagsins í gær, að trúnaðarbresturinn stafi af breytingum á fyrirkomulagi stjórnunar á rannsóknasviði, sem tóku gildi um síðastliðin áramót – „í andstöðu við vilja lækna.“

Eftir breytingarnar er rannsóknardeildum ekki stýrt af faglega ráðnum yfirlæknum, þ.e. viðurkenndum sérfræðingum í viðkomandi sérgrein læknisfræðinnar. Óttast er um öryggi sjúklinga á sjúkrahúsinu af þessum sökum.

Vilja draga breytingar til baka

Í ályktuninni krefst Læknafélag Reykjavíkur þess að skipulagsbreytingarnar verði dregnar til baka og að samráð verði haft við yfirlækna og sérfræðilækna á Landspítala um framtíðarskipan og fyrirkomulag lækningarannsókna á Landspítala.

„Aðalfundur LR minnir á, að skv. 10. grein laga um heilbrigðisþjónustu ætlast löggjafinn til þess, að yfirlæknar sérdeilda veiti forstöðu læknisfræðilegum sérgreinum og hafi eftirlit með starfsemi þeirra á grundvelli læknisfræðilegrar sérþekkingar sinnar í viðkomandi sérgreinum,“ segir í ályktuninni.

Til útskýringar segir félagið að um sé að ræða meinafræðilegar læknisfræðilegar sérgreinar, sem greina krabbamein, sýkingar, litningagalla, stökkbreytingar, blóðsjúkdóma, ónæmisbælingu, nýrnasjúkdóma, sykursýki, lyfjaáhrif, eitranir og svo framvegis.

„Til að tryggja öryggi sjúklinga á LSH verður stjórn sjúkrahússins að sjá til þess, að læknisfræðilegum sérgreinum rannsóknardeilda sé stýrt af faglega ráðnum yfirlæknum, sem eru viðurkenndir sérfræðingar í viðkomandi sérgreinum læknisfræðinnar. Án slíks fyrirkomulags verður ekki séð, að viðurkenndum viðmiðunarkröfum verði mætt á Landspítala eða að háskólasjúkrahúsið standi undir nafni,“segir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×