Innlent

Fundu kjálkabein af manni í fjöruborðinu: „Strákurinn minn var fyrst bara að leika sér með þetta“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Álfheiður segir að þeim hafi brugðið þegar þau áttuðu sig á því að beinið var úr manni.
Álfheiður segir að þeim hafi brugðið þegar þau áttuðu sig á því að beinið var úr manni. Álfheiður Gunnsteinsdóttir
Álfheiður Gunnsteinsdóttir var í fjöruferð ásamt manni sínum og syni síðastliðinn föstudag í Borgarnesi þegar þau rákust á heldur óvenjulegan grip í fjöruborðinu. Um var að ræða kjálkabein af manni.

Lék sér að beini

„Við vorum að veiða beint fyrir neðan Hafnarfjallið. Ég og litli strákurinn minn vorum að rölta og skoða steina og tína krabba og rákumst á þetta. Strákurinn minn var fyrst bara að leika sér með þetta og var að reyna að ná tönnunum úr og ég fattaði þetta ekki fyrst hvað þetta var. Þetta voru tveir heilir jaxlar,“ segir Álfheiður í samtal við Vísi. Álfheiður tók kjálkann með sér heim og skoðaði hann daginn eftir.

„Ég ætlaði að fullvissa mig að þetta væri örugglega úr manni. En það fer ekkert á milli mála þegar maður fer að skoða þetta,“ segir Álfheiður.

Álfheiður segir að þeim hafi brugðið þegar þau áttuðu sig á því að beinið var úr manni.

„Það er bara vonandi að það finnist út hver á þessi bein,“ segir Álfheiður.

Gamall kjálki

„Við höldum að þetta sé kjálki af manni og virðist vera gamall. Það er eiginlega það eina sem við vitum. Hann er mikið slitinn, búinn að velkjast greinilega lengi,“ segir Jón Ólafsson yfirlögregluþjónn á Vesturlandi. Kjálkinn verður sendur í greiningu hjá Kennslanefnd. Ekki er vitað hvenær niðurstöðu er að vænta frá nefndinni.

Hvort að kjálkinn tengist mannshvarfi sé hins vegar erfitt að segja. Hann telur þó að ef svo sé þá sé um að ræða gamalt mál.

Jón segir fundur sem þessi sé ekki algengur. Búist er við því að svæðið verði skoðað nánar og athugað hvort að fleiri bein finnist.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×