Viðskipti innlent

Segir fjárfesta geta flýtt fyrir uppbyggingu vega

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Vísir/GVA
Vexti ferðaþjónustunnar á undanförnum árum hefur ekki verið fylgt nægjanlega eftir með viðhaldi og nýjum fjárfestingum í vegakerfinu, að mati Ingólfs Bender, hagfræðings Samtaka iðnaðarins. Hann segir stjórnvöld verða að skoða með opnum hug aðkomu einkaaðila að fjármögnun og uppbyggingu samgöngumannvirkja.

Einkaaðilar, hvort sem er lífeyrissjóðir eða einkafjárfestar, geti komið að stórum framkvæmdum sem taldar eru þjóðhagslega arðvænar og flýtt þannig fyrir uppbyggingunni.

Eins og greint var frá í Markaðinum í gær hafa fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, sýnt því áhuga að koma að fjármagnsfrekum samgönguframkvæmdum í kringum höfuðborgarsvæðið, til að mynda Sundabraut og nýjum Hvalfjarðargöngum.

Í samtali við blaðið segir Ingólfur að fjárfestingar hins opinbera á sviði vegasamgangna hafi verið um 1,0 prósent af landsframleiðslu í fyrra. Hlutfallið hafi verið mjög lágt síðustu sex árin eða að jafnaði um 0,9 prósent. Til samanburðar hafi meðaltal fjárfestinga hins opinbera á þessu sviði verið 1,6 prósent af landsframleiðslu tvo áratugina þar á undan.

„Við höfum bætt verulega í flugsamgöngur og fjárfest af myndarskap í bifreiðum, svo dæmi séu tekin, en fjárfestingar í vegasamgöngum hafa algjörlega setið á hakanum.

Við verðum að bæta úr því ef því ætlum að tryggja sem best umferðaröryggi og byggja undir ferðaþjónustu þar sem ferðamenn fara héðan heilir á húfi og sáttir við dvöl sína.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×