Viðskipti innlent

Meiri samdráttur en búist var við

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hagar reka meðal annars verslanir Bónus.
Hagar reka meðal annars verslanir Bónus. Vísir/Eyþór
Meiri samdráttur varð í sölu í verslunum smásölurisans Haga í júnímánuði en fjárfestar bjuggust við. Afkomuviðvörunin, sem félagið sendi frá sér á fimmtudagskvöld, kom þeim í opna skjöldu, en til marks um það lækkuðu hlutabréf félagsins um 4,26 prósent í 672 milljóna króna viðskiptum í gær.

Gengi hlutabréfa í Högum hefur fallið um tæp 28 prósent frá því að Costco opnaði undir lok maí. Tæpir sextán milljarðar af markaðsvirði félagsins hafa þurrkast út á þessum tíma. Gengi hlutabréfanna stóð í 39,35 krónum á hlut þegar markaðir lokuðu í gær og hefur ekki verið lægra frá því í ágúst árið 2014.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur eitthvað verið um að fjárfestar hafi skortselt hlutabréf í Högum á undanförnum vikum og átt þannig þátt í lækkun hlutabréfaverðsins.

Fram kom í afkomuviðvörun Haga að sala í verslunum félagsins hefði dregist saman um 8,5 prósent í krónum talið í júnímánuði miðað við sama tímabil í fyrra að teknu tilliti til aflagð­rar starfsemi. Þá minnkaði framlegð samstæðunnar um 0,4 prósentustig á milli ára.

Arnar I. Jónsson, greinandi í hagfræðideild Landsbankans, segir sölusamdráttinn ekki hafa komið á óvart. Hins vegar hafi hann verið heldur meiri en búist hafi verið við. Það hafi sést á viðbrögðum markaðarins í gær. „Það á enn eftir að koma í ljós hver langtímaáhrifin verða. Við lítum svo á að mesti skellurinn hafi verið í júnímánuði og mögulega á þessum ársfjórðungi en að þetta jafnist síðan út, ef svo má segja. Það á eftir að koma betur í ljós hver viðbrögð Haga verða við þessu breytta samkeppnisumhverfi,“ segir hann. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×