Innlent

Loka Víðinesi þrátt fyrir mikla fjölgun

Jón Hákon Halldórsson og Kristinn Ingi Jónsson skrifa
Útlendingastofnun tók húsnæðið að Víðinesi á  leigu þegar veggjalús kom upp í húsnæðinu í Bæjarhrauni.
Útlendingastofnun tók húsnæðið að Víðinesi á leigu þegar veggjalús kom upp í húsnæðinu í Bæjarhrauni. vísir/HAG
Útlendingastofnun hefur sagt upp leigu á húsnæði í Víðinesi sem stofnunin hafði til afnota fyrir hælisleitendur, að sögn Þórhildar Hagalín, upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar. Húsnæðinu var skilað um síðustu mánaðamót. Sviðsstjóri hjá Rauða krossinum segir stjórnvöld verða að grípa til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir viðlíka húsnæðisvanda og kom upp í fyrra.

„Við erum ekki komin með ný úrræði sem ég get upplýst um. Það er ýmislegt sem er í skoðun,“ segir Þórhildur. Hún segir að með skipulagsbreytingum hafi fólkinu sem var fyrir í Víðinesi verið komið í annað húsnæði. „Við erum með Arnarholt, í Bæjarhrauninu í Hafnarfirði og í nokkrum minni úrræðum,“ segir Þórhildur.

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins
Útlendingastofnun tók Víðines á leigu í fyrrahaust og flutti um fjörutíu hælisleitendur þar inn í október, eftir að veggjalús kom upp í Bæjarhrauni. Þórhildur segir að aldrei hafi staðið til að húsnæðið í Víðinesi yrði nýtt til langframa. „Það var upphaflega gerður samningur til þriggja mánaða og svo var hann framlengdur,“ útskýrir hún. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir að ákveðið hafi verið að auglýsa húsnæðið í Víðinesi til leigu. Hann býst við að auglýsing verði birt í næstu viku.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun sóttu 130 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi í júní. Heildarfjöldi umsókna á fyrstu sex mánuðum ársins er 500 en það eru um 80 prósent fleiri umsóknir en bárust á fyrri helmingi síðasta árs. Áætlar Útlendingastofnun að umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi geti farið upp fyrir 2.000 á árinu.

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins, segir að skortur hafi verið á viðunandi húsnæði og umönnun fyrir hælisleitendur í fyrra. Aðbúnaður þeirra hafi auk þess ekki verið eins og best verður á kosið. „Ef við horfum fram á áttatíu prósenta fjölgun í ár, þá má búast við að það komi upp sams konar vandamál eða jafnvel meiri. Það hefði mikil óþægindi í för með sér fyrir alla. Það yrði bæði kostnaðarsamt og tímafrekt,“ segir hann.

„Við göngum út frá því að stjórnvöld séu að undirbúa sig til þess að geta hýst þennan fjölda sem er væntanlegur og eins að þau tryggi skjóta, skilvirka og vandaða málsmeðferð í málum þeirra, þannig að málin tefjist ekki lengi. Það er dýrt og auðvitað mjög slæmt fyrir þá sem þurfa að bíða úrlausnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×