Viðskipti innlent

Hafa flutt gjaldeyrinn úr landi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Gengi krónunnar hefur verið afar sveiflukennt undanfarnar vikur.
Gengi krónunnar hefur verið afar sveiflukennt undanfarnar vikur. vísir/valli
Vísbendingar eru um að hluti þeirra fjárfesta sem tóku þátt í fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands á fyrri hluta árs 2012 hafi innleyst fjárfestingar sínar og flutt gjaldeyri úr landi á síðustu vikum. Það gæti hafa átt þátt í gengisveikingu krónunnar undanfarið, að sögn sérfræðinga á gjaldeyrismarkaði sem Fréttablaðið ræddi við, en krónan hefur veikst um níu prósent samkvæmt gengisvísitölu undanfarnar fimm vikur.

Fjárfestingarleið Seðlabankans gekk út á að fjárfestar komu með gjaldeyri til landsins og skiptu honum fyrir krónur og fjárfestu hér á landi til lengri tíma. Gulrótin fyrir fjárfestana var að þeir fengu um tuttugu prósenta afslátt af krónunum miðað við skráð gengi Seðlabankans. Það skilyrði var sett að binda þyrfti fjárfestinguna til fimm ára. Fyrstu gjaldeyrisútboðin samkvæmt fjárfestingarleiðinni fóru fram á fyrra hluta árs 2012 sem þýðir að þeir sem tóku þátt í útboðunum geta nú losað fjárfestingar sínar, kjósi þeir svo.

Viðmælendur Fréttablaðsins segja óvíst í hve miklum mæli umræddir fjárfestar hafa flutt gjaldeyri úr landi á undanförnum vikum. Þó sé ljóst að einhverjir hafi nýtt sér tækifærið þegar fimm ára kvöðinni var aflétt og það hafi átt þátt í gengisveikingu krónunnar. Um 123 milljónir evra, eða 29,5 milljarðar króna miðað við þáverandi útboðsgengi, komu til landsins í fjórum útboðum á fyrstu sex mánuðum ársins 2012. Fjárfestarnir geta nú innleyst tugi milljarða króna í gengishagnað. 

Þá herma heimildir Fréttablaðsins að Seðlabankinn hafi gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn í fyrradag með kaupum á krónum fyrir rúman einn milljarð króna. Bankinn greip inn í seint um daginn, þegar gengi krónunnar hafði veikst um meira en tvö prósent gagnvart evrunni, en bankinn hefur áður lýst því yfir að hann leitist við að draga úr óæskilega miklum sveiflum á gjaldeyrismarkaði.

Veikingin í fyrradag gekk til baka í gær þegar gengi krónunnar styrktist um 2,4 prósent gagnvart evru og 2,1 prósent gagnvart Bandaríkjadal.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×