Innlent

Björgunarsveitir finna ferðalanga í Lónafirði

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Björgunarsveitin er á leiðinni á svæðið.
Björgunarsveitin er á leiðinni á svæðið. Landsbjörg
Björgunarsveitir á Vestfjörðum voru nú klukkan sjö boðaðar út vegna neyðarboða sem barst úr neyðarsendi frá Lónafirði á Jökulfjörðum. Samtals 20 Björgunarsveitarmenn eru á leiðinni í fjörðinn á hraðskreyðum bátum frá Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að ekki hafi náðst samband við neinn sem hafi kveikt á neyðarsendinum. Þá segir hann jafnframt að neyðarboðið komi ekki út frá rúmsjó. Um er að ræða neyðarboða sem útivistarfólk hefur oft á sér og virkjar ef það lendir í neyð. Þá sendir tækið út staðsetningu viðkomandi og björgunarsveitir bregðast við. Meira er ekki vitað að svo stöddu.

Fréttin verður uppfærð.



Uppfært 20:43

Björgunarsveitarmenn eru komnir á svæðið og hafa hafið leit. Ekkert hefur fundist hingað til. 

Uppfært 21:10

Búið er að finna ferðalanga sem sendu frá sér neyðarboð frá Lónafirði. Virðast þeir vera óslasaðir en eru kaldir og hraktir. Þeir hafa einnig týnt hluta af útbúnaði sínum. Björgunarsveitarmenn eru komnir í land og hlúa nú að ferðalöngunum.

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×