Innlent

Með aðferðum Kim Il-sung væri hægt að rafvæða bílaflotann innan 13 ára

Jakob Bjarnar skrifar
Sigurður Ingi Friðleifsson segir þróunina hraða en óraunhæft sé að vænta þess að bílaflotinn allur verði rafknúinn innan 13 ára.
Sigurður Ingi Friðleifsson segir þróunina hraða en óraunhæft sé að vænta þess að bílaflotinn allur verði rafknúinn innan 13 ára.
„Já, tæknilega væri þetta raunhæft. Við gætum tekið Kim Il-sung á þetta og bannað bensínbíla á morgun. En, bílaflotinn er akkúrat 10 til 15 ára gamall núna. Við erum sveiflukennd í því; eftir 13 ár verða 90 prósent núverandi bílaflota farinn,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson. Hann er framkvæmdastjóri og manna fróðastur um rafbíla og rafbílavæðingu hér sem og um heim allan.

Ýmsir ráku upp stór augu í gærkvöldi þegar Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, birtist í kvöldfréttatíma RUV, í kjölfar „Stóra kjólamálsins“ og tilkynnti að stefnt væri að því að allur bílafloti Íslands verði raf- og metanvæddur fyrir árið 2030 til að bregðast við loftslagsvandanum. Björt sagðist vongóð um að það tækist. En, þá er til þess að líta að einungis er um að ræða 13 ár og 1,5 prósent íslenska bílaflotans er nú rafknúinn. Vissulega göfugt markmið en getur þetta talist raunhæft? Þó Sigurður Ingi sé bjartsýnn maður og mjög áfram um rafbílavæðingu, þá telur hann svo ekki vera. Því miður.

Ýmis ljón í veginum svo sem fáar tegundir rafbíla

Sigurbjörn Ingi segir ekki líklegt að við tökum upp verklag Kim Il-sung heitins leiðtoga Norður-Kóreu.

„Líklega gerum það ekki, þó þetta sé fræðilega hægt er þetta ekki raunhæft. Ég held að hún hafi verið að meina að við séum að fara hratt inn í rafvæðingu og innan 13 ára, eða einhvern tíma við lok þessa tímabils verði allar nýskráningar eða hlutfall þeirra komnar uppí hundrað prósent í rafbílum. Þá verði 90 til 100 prósent nýskráninga rafmagnsbílum. Það er alveg raunhæft miðað við hraðann í þessu öllu. Þetta gengur fínt núna.“

Sigurður Ingi gantast með það að ef Kim Il-sung væri hér við völd, þá væri þetta hægt.
Ýmis ljón eru í veginum svo sem tegundafæð rafbíla. „Ekki komnar nógu margar tegundir. Við erum númer 2 í heiminum í nýskráningum á rafbílum. Norðmenn eru á toppnum, sem er önnur sönnun um að þetta sé á leiðinni, þar er yfir 40 prósent nýskráninga rafbílar. Við erum með sömu ívilnanir til handa rafbílaeigendum en skattleggjum ekki díselbíla sem og þeir gera, með innflutningsgjöldum og öðru slíku.“

Væri grimmt að banna bensín- og díselbíla í dag

Nú er Íslendingum tamt að vilja leysa sín mál með þvingunum, boðum og bönnum. En, þó gripið yrði til slíks, er ekki ljóst að ef þróunin á að verða svona hröð þurfi hið opinbera að koma inn í með stórfelld framlög til að lækka rafbíla í verði?

„Nei, ég held að við séum á ágætum slóðum. Bílarnir eru ekki á óviðráðanlegu verði. Ég held frekar að vert væri að stíga fram með örlítilli hækkun á innflutningsverði á bensín- og díselbíla. En, þá kemur pólitík inní þetta, talandi um boð og bönn. Það er grimmt að banna bensín og díselbíla ef það eru til fáar tegundir sem eiga að taka við. En, það er að breytast mjög hratt. Mögulegt bann 2025 væri miklu mildari aðgerð en ef það bann yrði sett á í dag. Ætti að vera tiltölulega mild aðgerð og kannski lendum við í að þurfa að grípa til þess ef nýliðun gengur ekki nógu hratt fyrir sig.“

Björt Ólafsdóttir ráðherra birtist óvænt í kvöldfréttatíma RUV og tilkynnti að innan 13 ára yrði bílafloti landsmanna rafknúinn. Fæstir telja það göfuga markmið raunhæft.
Sigurður Ingi lýsir því að þó fáar tegundir séu til á markaði nú í dag sé þetta að breytast mjög hratt. Fjöldi bílaframleiðenda hafi tilkynnt um komu rafbíla. „Ég er bjartsýnn ennþá svo framarlega sem stjórnvöld guggna ekki á ívilnunum; hraðinn er að aukast í þessari þróun.“

Á það hefur verið bent að kapítalisminn fari sínar eigin leiðir og þá séu ekkert endilega hagsmunir almennings sem ráða heldur aðrir. Þetta virðist vera saga tækninýunga; komi fram ný tækni þá kemur hún ekkert endilega á markað fyrr en búið er að hreinsa út af gömlum lagerunum. Sigurður Ingi telur þetta vera Þrándur í Götu varðandi rafbílana.

„Að skipta um bíltækni er ekki eins og að skipta um nærbuxur. Það á sér langan aðdraganda þegar fyrirtæki ákveða að setja nýjan bíl á markað. Það er það ekki lítið mál. En, bílaframleiðendur sjá að rafbílanotkun er komin og þeir taka þátt en samt þannig að þeir flippi ekki yfir. Þeir myndu kannski vilja að þetta gerðist hægt og rólega en heimurinn virðist ekki hafa þolinmæði fyrir því og það sem flýtir fyrir þessu eru reglugerðir sem knýja þessi fyrirtæki til að gefa í, svo sem hjá Evrópusambandinu og í Kaliforníu. Svo hristir til dæmis Tesla verulega uppí þessu (en þeir þar eru að hefja fjöldaframleiðslu á Tesla Model 3), hreint rafbílafyrirtæki sem þarf ekki að hreinsa út gamla lagera. Og svo eru Kínverjar komnir í vesen vegna mengunar. Og það eru ekki loftslagsmálin í heild sinni heldur nærmengun í borgum, þeir þurfa að takast á við hana.“

Sóknarfæri okkar eru á sviði samgangna

Ráðherrann telur rafmagnsbíla vera helsta vopn Íslendinga í baráttunni við loftslagsbreytingar. Vísar hún til gnægtar hinnar grænu orku sem Íslendingar eigi sem nota megi til að knýja rafvæddan bílaflota með. En, er bílafloti þessarar örþjóðar eitthvað atriði í hinu stóra samhengi?

Sigurður Ingi segir þetta rétt hjá ráðherra. „Við náum þessu Parísarmarkmiði ekki nema með stórtækri rafvæðingu samgangna. Það kemur til af því að við erum í þrengri stöðu en aðrar þjóðir. Loftslagsbreytingar snúast um losun jarðefnaeldsneytis,“ segir Sigurbjörn Ingi og útskýrir að almenningur noti orku einkum í þrennt sem er raforka í öll tæki, húshitun (eða kæling eftir atvikum) og svo samgöngur. Um 80 prósent þessa á heimsvísu er keyrt á jarðefnaeldsneyti. „Við erum bara með einn flokk, jarðefnaeldsneytisnotkun okkar er öll í samgöngum. Þessi góða staða þrengir aðgerðarmöguleika okkar. Við verðum að fara þarna inn. Ekkert annað er í boði.“


Tengdar fréttir

Af hverju rafmagn í samgöngur?

Það er von að margir spyrji af hverju menn eins og ég vilji endilega troða raforku inn í síðasta vígi jarðefnaeldsneytis, þ.e.a.s. samgöngur. Er ekki nóg að raforka keyri allt annað í okkar daglega lífi, allt frá farsímum til frystiskápa?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×