Innlent

Hittast mánaðarlega og helga sig hinsegin bókmenntum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Samtökin 78 hafa komið á fót Hinsegin bókmenntaklúbbi þar sem rædd eru bókmenntaverk sem snerta á hinsegin tilveru.

Klúbburinn hittist síðasta sunnudag hvers mánaðar í húsnæði Samtakanna, Suðurgötu 3 í Reykjavík, og ræðir eitt eða fleiri fyrirfram ákveðin bókmenntaverk. Verkin eiga það öll sameiginleg að snerta á einhvern hátt á tilveru hinsegin fólks. Næsti fundur verður haldinn sunnudaginn 27. ágúst en þá verður Tappi á himnum, ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur, tekin fyrir.

Guðjón Ragnar Jónasson er einn stofnenda Hinsegin bókmenntaklúbbsins.Guðjón Ragnar Jónasson
Þá eru Dyrnar þröngu eftir Kristínu Ómarsdóttur, Hún er pabbi minn eftir Önnu Margréti Grétarsdóttur og Tvítólaveizlan eftir Ófeig Sigurðsson einnig á dagskrá auk fleiri verka.

„Mikið líf er í hinsegin bókmenntaklúbbnum, bekkir Samtakanna 78 eru þéttsetnir. Við vonumst til að sem flestir mæti, andans jöfrar mæta þarna og ræða málin,“ segir Guðjón Ragnar Jónasson, einn stofnenda bókaklúbbsins, í samtali við Vísi. Hann hleypti klúbbnum af stokkunum ásamt Maríu Helgu Guðmundsdóttur, formanni Samtakanna 78, og Ásu Kristínu Benediktsdóttur bókmenntafræðingi.

„Endilega takið þátt í vetrarstarfinu, næsti viðburður er þann 27. ágúst.“

Forsvarsmenn klúbbsins ítreka enn fremur að öll séu velkomin að bætast í hópinn. Þá er formleg reynsla af bókmenntalestri með öllu óþörf.

Hér má nálgast næsta viðburð Hinsegin bókmenntaklúbbsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×