Innlent

Segir það vera brot á læknaeiðinum að neita krökkum um veip sem reykja sígarettur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir, segir það vera brot á læknaeiðinum að neita krökkum um veip sem reykja sígarettur fyrir. Hann fagnar þeim mikla árangri sem við höfum náð í að draga úr reykingum. „Við sjáum milljónir barna sem eru bara hætt að reykja,“ segir Guðmundur.

Þetta sagði Guðmundur í viðtali í Reykjavík síðdegis þar sem veipið var til umfjöllunar.

Guðmundur hefur fylgst náið með erlendum rannsóknum á veipinu og segir hann að niðurstöðurnar lofi góðu. Erlendar rannsóknir sýni það að innan við eitt prósent þeirra barna sem prófa veipið halda áfram að reykja og á hann við þau börn sem byrja að veipa án þess að hafa nokkurn tíman reykt áður. Guðmundur segir að í veipinu sé vatnsgufa 96% en að önnur efni séu í svo litlu magni að það valdi fólki ekki skaða.



Guðmundur segir mikilvægt að tryggja öryggi rafmagnstækisins.vísir/getty
Telur rétt að sýna tillitssemi

Spurður að því hvort fólki sem veipar finnist það í rétti til að nota það hvar og hvenær sem er, segir Guðmundur að það hljóti að vera bundið hverjum einstaklingi fyrir sig. Hann segir að gufan, sem komi frá veipinu, sé hættulaus þeim sem eru í umhverfinu. Hann segir þetta þó í raun ekki vera spurningu um það heldur snúist þetta um að sýna tillitssemi. „Okkur er það ekki alltaf ríkt, held ég,“ segir Guðmundur um það að sýna hugulsemi. Hann hefur þó sínar grunsemdir um að nokkrir noti veipið til að storka.

Kallar eftir regluverki í kringum veipið

Guðmundur segist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að hafa skýrt regluverk í kringum veip en hann telur þörf á því að koma upp reglum gagnvart notandanum. Það þurfi að koma skýrt fram hversu mikið nikótín sé í vökvanum, það þurfi að viðhafa góða framleiðsluhætti og þá telur hann brýnt að tryggja öryggi rafmagnstækisins.

Guðmundur notar sjálfur veip en það hefur auðveldað honum að hætta að reykja sígarettur. Hann segir að tilkoma veipsins dragi úr hefðbundnum reykingum á sígarettum sem eru sérlega skaðlegar. Það sé því varhugavert að takmarka veipið um of.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×