Innlent

Ung kona skar og beit ferðamann í misheppnaðri ránstilraun

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Konan var leidd fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Konan var leidd fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. vísir/eyþór
Kona á þrítugsaldri var úrskurðuð í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að ráðast á ferðamann með hnífi og bíta hann. Árásin átti sér stað í Eskihlíð í höfuðborginni í gær. Ætlaði hún að ræna síma af ferðamanninum. Konan var í annarlegu ástandi en vitni að árásinni skarst í leikinn og náði að yfirbuga konuna þar til lögregla kom á vettvang.

„Þegar ferðamaðurinn vildi ekki afhenda símann dró konan upp hníf og skar hann í hendina. Hún beit hann svo helvíti illa til blóðs. Síðan ræðst hún á hann og leggur hníf að honum,“ segir Guðmundur Páll Jónsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.

„Þá kemur vegfarandi og hjálpar ferðamanninum með að halda stúlkunni niðri en hún náði samt að skera í kinnina á ferðamanninum,“ bætir Guðmundur við.

Konan var leidd fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og býst Guðmundur við að verjandi hennar kæri úrskurðinn til Hæstaréttar.

Áverkar ferðamannsins eru ekki taldir alvarlegir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×