Lífið

Bubbi skýtur á forsetann eftir að hann fór rangt með texta úr Rómeó og Júlíu

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson Vísir/Anton Brink
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens skýtur glettilega á forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, á Twitter eftir að sá síðarnefndi fór rangt með texta lagsins Rómeó og Júlía á kynningarfundi í Kelduskóla í morgun. Fundurinn var haldinn í tilefni af forvarnardeginum sem verður í skólum landsins á miðvikudag.

Í ræðu sinni í Kelduskóla fór Guðni yfir það hverjar væru öflugustu forvarnirnar og sagði að hægt væri að fara þá leið að benda á hörmulegar afleiðingar fíkniefnaneyslu.

„Þegar ég var ungur þá gaf Bubbi Morthens góða innsýn inn í þann heim, betur en maður getur gert með svona ræðu, í laginu um Rómeó og Júlíu. Þið krakkar vitið kannski ekkert hvaða lag það er þannig að ég skal þylja smá úr því,“ sagði Guðni og þuldi upp:

„Þegar kaldir vindar haustsins blása, naprir um næturnar, sérðu Júlíu ganga, bjóða sig hása, í von um líf í æðarnar.“

Þarna sagði Guðni „næturnar“ í stað „göturnar“. Einnig fór hann rangt með að það mætti sjá Júlíu ganga, því í laginu syngur Bubbi: Sérðu Júlíu standa, bjóða sig hása í von um líf í æðarnar.

Bubbi segir á Twitter að forsetanum leyfist allt og nú muni hann syngja „næturnar“ í stað „göturnar“ í Rómeó og Júlíu.

Uppfært kl 22:10

Forsetinn fór á Twitter til að biðja Bubba afsökunar og grínaðist með að það hefði verið eins gott að hann reyndi ekki að fara með texta úr Kál og hníf. 

Ræðu forsetans má heyra á vef Ríkisútvarpsins en hann vitnaði frænda sinn Jóa P. og félaga hans Chase sem hafa gert garðinn frægan með laginu Ég vil það. 

Guðni neitaði þó að rappa línu úr laginu en vitnaði í textabrotið að forsetasið: „Ég er clean, sippa ekki, fæ mér ekki í glas. Slakur á góðu róli í góðum félagsskap. Ég er slakur að njóta og lifa, fagur dagur, já góður, ég finn það,“ sagði Guðni og botnaði svo: 

„Já, eða slaggur, að njódda og liffa.“


Tengdar fréttir

Litli frændi forsetans kveikir í internetinu

JóiPé og KRÓLI gáfu út lagið B.O.B.A. á mánudaginn og síðan þá hefur íslenska internetið vera í ljósum logum. Þeir ætla að gefa út plötu á morgun þannig að það má eiga von á fleiri sprengjum á næstunni frá þessum kornungu félögum sem eru bara rétt að byrja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.