Innlent

Gunnar Hrafn segir Sjálfstæðisflokkinn hafa blóð á höndum sínum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata.
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata. Vísir/Stefán
Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segir Sjálfstæðisflokkinn hafa blóð á höndum sínum þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Þetta segir hann í athugasemd við færslu sem sett var inn á Facebook hópinn Geðsjúk.

Þar deilir einn meðlimur hópsins færslu Sjálfstæðisflokksins þar sem flokkurinn segist vilja ljúka framkvæmd geðheilbrigðisstefnunnar og fylgja henni eftir. Í færslunni segir flokkurinn einnig að auka þurfi áherslu á forvarnir og auðvelda heilsugæslunni að sinna frumþjónustu við fólk með geðræn vandamál.

Segir Sjálfstæðisflokkinn hafa bannað Óttari og Viðreisn að gera umbætur

„Þetta er ljótasta lygi sem ég hef séð í þessari kosningabaráttu. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem bannaði Óttari og Viðreisn að gera umbætur,“ skrifar þingmaðurinn sem býður sig jafnramt fram fyrir flokkinn aftur fyrir komandi alþingiskosningar. Segist hann hafa setið fundi þar sem þetta var rætt og að þetta hafi verið kristalsljóst.

Þá segir þingmaðurinn að Sjálfstæðisflokkurinn hafi blóð á höndum sínum. „Þessir lygarar hafa blóð á höndum sínum. Blóð vina minna.“

Uppfært klukkan 06:20.

Gunnar Hrafn vill koma eftirfarandi á framfæri: 



„Það deyja TUGIR ungmenna árlega úr sjúkdómi sem er ekki verið að meðhöndla í mörgum tilfellum, vegna skorts á framlögum og aðstöðu. Þrátt fyrir mikla vitundarvakningu í samfélaginu snertir þetta enn ofboðslega margar fjölskyldur sem ekki þora að koma fram. Tugþúsundir Íslendinga sem eru í sárum.

Þeir sem stóðu gegn því að við Óttar Proppé gætum gert það sem við vildum gera, byltingu í þessum málum, voru leiðtogar ríkisstjórnarinnar. Þeir fóru með valdið og upplýsingarnar. Sem varð til þess að stjórnin féll eins Píratar vöruðu við.

Ég vona að menn telji þetta ekki brot á einhverjum trúnaði. Það er bara ákaflega mikilvægt að það komi fram hvernig ég og aðrir þurftum að djöflast í þessu og fengum fátt annað til baka frá stjórnarliðum en ósmekklegar aðdróttanir um veikindi mín.

Maður þarf auðvitað að vera geðveikur til að vilja koma veg fyrir að tugir Íslendinga fyrirfari sér á hverju ári eftir algjöra höfnun frá kerfinu. Er ég bara svona klikkaður eða er þetta svívirðilegt óréttlæti?"

Þingmaðurinn lét ummælin falla á Facebook-hópnum Geðsjúk.Vísir/Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×