Viðskipti innlent

Tryggingagjaldið hækkað um þrjátíu milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs verða tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldinu liðlega 99 milljarðar króna.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs verða tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldinu liðlega 99 milljarðar króna. Vísir/Vilhelm
Þrátt fyrir að hafa lækkað um 0,94 prósentustig hefur tryggingagjaldið hækkað um allt að þriðjung í krónum talið á undanförnum fjórum árum. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs verða tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldinu liðlega 99 milljarðar króna. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun gjaldið því hafa hækkað um 30 milljarða króna frá árinu 2013.

Á sama tíma og tryggingagjaldið hefur stórhækkað í krónum talið hefur verulega dregið úr atvinnuleysi sem er nú nálægt sögulegu lágmarki.

„Tryggingagjaldið var hækkað til þess að standa straum af auknu atvinnuleysi í kjölfar hrunsins. Þetta var hugsað sem tímabundin aðgerð. Það myndaðist hins vegar mikil tregða hjá ríkisstjórninni að lækka gjaldið aftur þegar atvinnuleysi minnkaði. Gjaldið hefur ekki fylgt þróun atvinnuleysis til lækkunar,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að tryggingagjaldið geri það að verkum að fyrirtæki með fjórtán starfsmenn greiði í reynd kostnað sem samsvarar fimmtánda starfsmanninum.

„Tryggingagjaldið er vondur skattur sem leggst á öll laun og dregur úr nýsköpun í atvinnulífinu. Það bitnar sérstaklega á litlum fyrirtækjum þar sem launagjöld eru yfirgnæfandi hluti rekstargjalda, en lítil fyrirtæki eru meginuppspretta nýrra starfa í efnahagslífinu,“ segir hann.

Tryggingjaldið stendur nú í 6,75 prósentum og er gert ráð fyrir að það skili um 90 milljörðum króna til ríkissjóðs í ár. Til samanburðar var hlutfallið 7,69 prósent árið 2013 en þá voru tekjur ríkissjóðs af gjaldinu tæpir 70 milljarðar. Hæst var hlutfallið 8,65 prósent árið 2011.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Halldór segir að þrátt fyrir mikla erfiðleika í rekstri fyrirtækja hafi Samtök atvinnulífsins stutt hækkun gjaldsins enda myndi atvinnulífið síðar njóta góðs af lækkun þess þegar betur áraði. Sú lækkun hafi hins vegar ekki gengið eftir.

„Þegar atvinnuleysi tók að minnka og atvinnutryggingagjald lækkaði  sáu stjórnvöld færi á því að hækka almenna tryggingagjaldið. Almenna tryggingagjaldið hækkaði um 1,5 prósent á árunum 2011 til 2014 og varð 6,04 prósent, en atvinnutryggingagjaldið lækkaði um 2,36 prósent og varð 1,45 prósent.“

„Tryggingagjaldið í heild er nú 6,75 prósent og þar af er almenna tryggingagjaldið 5,40 prósent og atvinnutryggingagjaldið 1,35 prósent. Það hefur því lækkað um 1,6 prósent frá því sem það var hæst en á sama tíma hefur atvinnutryggingagjald lækkað um 2,46 prósent. Atvinnulífið telur sig því eiga inni tæplega 1 prósents lækkun tryggingagjalds í heild,“ segir Halldór.



Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.Vísir/GVA
Ingólfur segir tryggingagjaldið hafa átt að lækka á þessu ári til þess að mæta miklum kostnaði við umsamdar launahækkanir og jöfnun lífeyrisréttinda. Það hafi hins vegar ekki verið gert.

„Það voru mikil vonbrigði þar sem ljóst var að kjarasamningar myndu ganga mjög nærri getu fyrirtækja og að mótvægisaðgerðir stjórnvalda væru nausynlegar til að kostnaðaraukinn færi ekki að stórum hluta út í verðlag.“

Nú þegar vísbendingar séu um að farið sé að hægja á fjölgun starfa myndi lækkun gjaldsins verða til þess að auka eftirspurn eftir vinnuafli. Það sé afar mikilvægt nú þegar teikn eru á lofti um að það sé að slakna á spennunni í hagkerfinu.

„Nú er ágætis tími til þess að lækka gjaldið og efna það loforð sem var gefið fyrir mörgum misserum,“ segir Ingólfur.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir sambandið styðja lækkun tryggingagjaldsins.

Hins vegar verði fyrst að bæta réttindin innan þeirra sjóða sem gjaldinu er ætlað að fjármagna, svo sem Atvinnuleysistryggingasjóðs og Fæðingarorlofssjóðs. „Áður en gjaldið er lækkað verður að tryggja að atvinnuleysisbætur fylgi þróun kaupgjalds og að hámarksfjárhæð fæðingarorlofs verði hækkað og orlofið lengt í tólf mánuði. Við viljum ekki lækka gjaldið á grundvelli skerðinga réttinda,“ segir hann. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×