Innlent

Ekki færri konur á Alþingi síðan árið 2007

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þetta er hið nýja þing í heild sinni.
Þetta er hið nýja þing í heild sinni. Grafík/Gvendur
Konum á Alþingi fækkar úr 30 í 24 og hafa kynjahlutföllin ekki verið verri síðan árið 2007. 39 karlar fá sæti á Alþingi eftir þessar kosningar en aðeins 24 konur, svo þær eru aðeins 38 prósent þingmanna.

Til samanburðar fengu 33 karlar og 30 konur sæti á Alþingi eftir kosningarnar á síðasta ári. Árið 2013 voru konurnar á Alþingi 25 en árið 2009 voru þær 27. 

Eins og áður sagði taka 24 konur sæti á Alþingi núna og hafa ekki verið færri síðan árið 2007 þegar þær voru 20 og karlarnir 43.

 

Hjá Sjálfstæðisflokknum eru fjórar konur og tólf karlar sem taka sæti á Alþingi. Konurnar sem taka sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn eru þær Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Sex konur taka sæti á Alþingi fyrir Vinstri græn en fimm karlar. Konurnar eru þær Lilja Rafney Magnúsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.

Hjá Samfylkingunni er kynjahlutfallið þannig að í þingflokknum eru þrjár konur og fjórir karlmenn. Konurnar sem taka sæti fyrir Samfylkinguna eru þær Oddný G. Harðardóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Helga Vala Helgadóttir.

Hjá Miðflokknum er aðeins ein kona en karlarnir eru sex. Konan sem tekur sæti fyrir Miðflokkinn er Anna Kolbrún Árnadóttir.

Fimm konur taka sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins en þrír karlar. Konurnar eru þær  Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Í þingflokki Pírata eru tvær konur og fjórir karlar. Konurnar eru þær Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Halldóra Mogensen.

Inga Sæland er eina konan í Flokki fólksins sem tekur sæti á Alþingi en þrír karlar úr flokknum taka sæti.

Hjá Viðreisn eru kynjahlutföllin algjörlega jöfn innan þingflokksins, tvær konur og tveir karlar. Þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson taka sæti á Alþingi fyrir Viðreisn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×