Umfangsmiklar breytingar á leiðarkerfi og þjónustu Strætó verða innleiddar um áramótin. Meðal annars munu breytingarnar hafa í för með sér lengri þjónustutíma á kvöldin og næturakstur á völdum leiðum um helgar. Þá verður sérstök sumaráætlun með minni akstri afnumin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó.
Þjónustutími verður lengdur á leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 11, 12, 15, 18. Leiðirnar voru skipulagðar þannig að þær munu aka til 01:00 eða sem næst því.
Áætlunin gerir ráð fyrir því að leiðir 1,2,3,5,6 og 11 muni sinna næturakstri aðfaranótt laugar- og sunnudags. Stefnt er að því að þessar leiðir keyri frá miðbænum til klukkan 04:00-04:30.
Í einhverjum tilvikum munu leiðirnar aka eftir sínum hefðbundnu leiðum en sumar leiðir verða styttar. Leiðirnar munu eingöngu aka frá miðbænum og út í hverfin, en ekki til baka.
Aukinn akstur og breyting á einstökum leiðum verður eftirfarandi:
Leið 6 verður stytt og tíðnin aukin. Hún mun aka á 10 mín. fresti á annatímum og enda ferðir sínar í Egilshöll.
Leið 7 kemur ný inn í leiðakerfið og mun hún aka á milli Egilshallar og Helgafellslands í Mosfellsbæ á 30 mínútu fresti.
Leið 2 verður lengd og mun hún keyra áfram úr Versölum og enda Mjódd, þar sem tenging við fleiri leiðir myndast. Leið 28 verður stytt á móti lengingu leiðar 2.
Leið 21 verður breytt og mun hún nú aka um Hafnarfjörð, Smárahvammsveg, framhjá Smáralind og enda í Mjódd. Leiðin mun ganga lengur fram á kvöld og mun einnig aka á sunnudögum, sem er mikil bót fyrir Hafnfirðinga og starfsfólk í Kauptúni.
Leið 35 mun aka í báðar áttir frá Hamraborg og verður á 30 mín fresti. Breyting sem bætir tengingu Kópavogsbúa við aðrar leiðir í Hamraborg.
Innlent