Fótbolti

Keyrði þúsund kílómetra tvisvar í viku eftir kókaíni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafur var ekki aðeins framúrskarandi knattspyrnumarkvörður heldur einnig góður körfuboltamaður.
Ólafur var ekki aðeins framúrskarandi knattspyrnumarkvörður heldur einnig góður körfuboltamaður. vísir/getty
„Mistilteinn Ólafs Gottkálssonar er kókaín,“ sagði Guðmundur Björn Þorbjörnsson í þætti sínum Markmannskanskarnir hans Alberts Camus á Rás 1. Viðfangsefni þáttar þessarar viku var íþróttamenn sem missa tökin og leiðast inn á ógæfubrautir.

Ólafur er af Suðurnesjunum og spilaði með Keflavík, ÍA og KR hér á landi áður en hann hélt út í atvinnumennsku og spilaði með Hibernian áður en hann fór til Brentford.

Ólafur hafði byrjað að fikta í fíkniefnum á Íslandi löngu áður en hann fór í atvinnumennsku og hann fór í meðferð árið 1995. Þegar henni lauk átti hann frábært sumar með Keflavík sem leiddi til þess að hann fékk tækifærið í atvinnumennskunni.

Hann hafði verið edrú í sex ár þegar hann fór á þorrablót Íslendinga í London og hlutirnir fóru að ganga illa aftur.

Þar hitti hann fyrir íslenskan félaga sinn sem var með Englending með í för. Sá hafði atvinnu við að selja eiturlyf.

„Ég get ekki kennt neinum um nema sjálfum mér, en maður hefur oft sagt við sjálfan sig þetta helvítis þorrablót,“ sagði Ólafur er hann lýsti atburðarásinni þar á eftir.

Hann gat verið í friði í sinni neyslu úti í Bretlandi þar sem enginn þekkti hann og fór fljótt í harða neyslu.

„Þegar þú fellur sem neytandi þá byrjar þú ekkert rólega.“

Fréttablaðið, 30. júní 2005.
Undir lok samningstímans hjá Brentford þá meiddist Ólafur á öxl, svo hann snéri aftur heim. Hann fékk svo tækifæri til þess að fara aftur út til Englands og spila fyrir Torquay. Hann segist ekki viss hvort það hafi verið tækifærið til að spila aftur í atvinnumennskunni eða tækifærið til að komast aftur í almennilega neyslu sem hafði dregið hann út aftur.

Hann fór aftur út, og var að eigin sögn í bullandi neyslu.

„Bullandi neysla er dagneysla. Dealerinn minn bjó í London og það voru keyrðir 500km aðra leið til að ná í efnið sitt tvisvar í viku,“ sagði Ólafur um tímann hjá Torquay.

„Þegar kemur að því að ég var kallaður í lyfjapróf þá kom það mér ekki á óvart. Ég skil ekki hvernig ég gat staðið í þessu, mætt á æfingar og performað af einhverju leiti.“

Ólafur mætti ekki í lyfjaprófið, heldur lét hann sig hverfa og þurfti félagið að gefa út yfirlýsingu þess efnis að hann væri týndur.

„Agaleg skömm, ég sá ekkert annað í stöðunni en að láta mig hverfa. Ég fór til Hollands. Tók bara næstu vél til Amsterdam og var þar í viku, 10 daga í algleymingi.“

„Var auglýstur týndur í blöðunum hérna heima og gerði mér enga grein fyrir því hvað ég var að gera fólkinu hérna heima. Maður hlustar bara á rasskatið á sjálfum sér,“ sagði Ólafur.

Eftir tímann í Amsterdam ákvað Ólafur að hringja í móður sína og segir það hafa verið eina af sínum bestu ákvörðunum. Hún fór og setti allt af stað til að hann gæti komið heim. Hann fór fyrst aftur til Englands í meðferð og snéri svo heim.

Árið 2009 féll Ólafur aftur. Hann fór með strák sem hann þekkti lítið að sækja tölvu, sem strákurinn sagðist eiga. Hann elti hann inn í hús í Keflavík, tók þar tölvuna og fóru þeir svo heim. Svo flytur Ólafur til Noregs en fær stuttu seinna símtal frá lögreglunni.

Það endar þannig að Ólafur er dæmdur fyrir húsbrot, líkamsárás og rán. Hann fékk 10 mánaða dóm sem hann áfrýjaði. Þá hækkaði dómurinn í 12 mánuði en hann sat að lokum inni í sjö.

Ólafur er ekki sammála öllu sem fram kemur í dómnum, en viðurkennir þó sök sína. „Hins vegar fór ég óboðinn inn um dyrnar hjá þessum manni og get ekki kennt neinum öðrum en mér um.“

„Hræðilegt áfall. Trúði ekki að þetta væri að gerast fyrir mig. Hvernig get ég lennt í þessu. Þetta er allt hálf ótrúlegt.“

Hann lýsti því að mikil lukka hafi veri á meðal fanganna á Litla hrauni að fá hann þar inn, þeir hlökkuðu til að fá að spila við hann fótbolta.

„Mér leið alveg hræðilega illa allan tímann.“

Þegar Ólafur kom út af Hrauninu þá var hann edrú í eitt og hálft ár. „Svo kemur púkinn á öxlina.“

Hann byrjar aftur að fikta við fíkniefnin, en gerir það öðruvísi. Hann var ekki í sambandi við fólk eða úti á lífinu. Hann gerði það bara einn heima.

Ólafur var meira eða minna edrú frá því hann losnaði út af Litla hrauni, með einu litlu hliðarfalli, þar til á síðasta ári þegar hann lenti í eltingaleik við lögregluna með ungan son sinn í aftursætinu.

Sjá einnig: Óli Gott lagði á flótta undan lögreglu með fimm ára son sinn í aftursætinu

„Þeir keyrðu fjórum sinnum inn í hliðarnar á bílnum, vitandi að fimm ára sonur minn var í aftursætinu. Ég mun aldrei skilja ákvörðun lögreglunnar að gera þetta,“ sagði Ólafur þegar hann lýsir atvikinu.

„Verð að kyngja því að ég tók alveg kolranga ákvörðun. Þarna hefði ég viljað grafa mig niður í jörðina.“

Eftir þetta þá hafði Ólafur samband við Þorgrím Þráinsson, Guðna Bergsson og Guðmund Hreiðarsson. Þeir hjálpuðu honum að komast í meðferð, og hann var kominn inn eftir aðeins tvo daga, þrátt fyrir margra mánaða biðlista, með hjálp félaga sinna.

Ólafur sagði það mun algengara en fólk héldi að íþróttamenn væru í neyslu. Hann mun þurfa að lifa með þessum sjúkdómi það sem eftir er ævinnar, en hans markmið í dag eru að nýta sína reynslu til að hjálpa öðrum.

„Ef ég gæti hjálpað einum leikmanni þá væri það æðislegt,“ sagði Ólafur Gottskálksson.

Hlusta má á frásögn Ólafs í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×