Innlent

Nágrannar ósáttir við afgerandi núðlulykt

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Noodle Station var opnað á Laugavegi 103 fyrir um ári. Eigendur íbúðanna fyrir ofan eru ósáttir við sterka lykt frá staðnum.
Noodle Station var opnað á Laugavegi 103 fyrir um ári. Eigendur íbúðanna fyrir ofan eru ósáttir við sterka lykt frá staðnum. vísir/stefán
„Vandamálið er lyktin. Þó mér finnist núðlur mjög góðar er ég ekki viss um að kúnnar sem borga fullt af peningum fyrir að koma til Íslands séu hrifnir af að hafa þessa lykt yfir sér,“ segir Jón Fannar Karlsson Taylor, eigandi Caze Reykjavík Central Luxury Apartments, á Laugavegi 103.

Hann segir afgerandi lykt sem leggur frá taílenska veitingastaðnum Noodle Station á jarðhæð hússins koma niður á gistiþjónustunni sem rekin er í íbúðunum fyrir ofan. Viðskiptavinir hans kvarti yfir þessu og það komi niður á einkunnagjöf á netinu.

Eigandi Noodle Station telur að loftræstikerfi hússins virki ekki sem skyldi.

Charin Thaiprasert, eiganda Noodle Station, grunar að vandamálið sé loftræstikerfið í húsinu og einskorðist ekki við veitingastaðinn hans.vísir/anton
Jón Fannar er með íbúðir til útleigu á annarri hæð hússins, þar af eina beint fyrir ofan Noodle Station,­ og segir að lyktin valdi gestum óþægindum.

„Í logni og kulda eins og nú er, þá er eins og maður sé staddur inni á veitingastaðnum og þetta hefur veruleg áhrif á gesti mína. Ég hef fengið töluvert af kvörtunum yfir því hversu sterk lyktin er, bæði á stigaganginum og í íbúðunum.“

Jón Fannar segir að hvorki opnun staðarins né uppsetning á skilti veitingastaðarins utan á húsið hafi verið borin undir húsfélagið og kvartanir eigenda hafi engu skilað.

Að sögn Jóns Fannars eru fimmtán íbúðir í húsinu fyrir ofan veitingastaðinn og nær allar í útleigu til ferðamanna.

„Þetta hefur áhrif á alla. Við erum til dæmis skráð á booking.com og þetta hefur áhrif á einkunnirnar sem við fáum og þá viðskipti okkar í framtíðinni.“

Charin Thaiprasert, eigandi Noodle Station, segir að grunur leiki á að loftræstingin í byggingunni virki ekki sem skyldi.

„Ég er búinn að tala við Reykjavíkurborg um að fá teikningar af húsinu til að sjá hvar þessar lagnir eru og hvort loftræstikerfið sé að virka eins og það á að gera. Það er loftræstikerfi í húsinu en það er spurning hvort þetta sé rétt tengt.“

Charin segir að á Noodle Station finnist einnig matarlykt frá öðrum eldhúsum í byggingunni. „Við finnum lyktina í hádeginu frá hótelinu yfir til okkar, við viljum það ekki heldur. Þetta er bara eitthvað sem þarf að skoða.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×