„Það hefði að minnsta kosti átt að fá fasteignasala til að meta verðmæti landsins áður en til sölu þess kom og verið æskilegt að selja það á frjálsum markaði vegna þess að opið söluferli er eðlilegasta aðferðafræðin og sú heiðarlegasta þegar verið er að selja opinberar eignir. Allt væri þá uppi á borðum og borgin hefði þá átt jafnt á við aðra og getað boðið í landið á markaðsverði og stjórn Faxaflóahafna tekið upplýsta ákvörðun,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Faxaflóahöfnum.

Fullyrti Marta að Reykjavíkurborg hefði þrýst á að fá keypt landið, sem verður hluti af stækkun bryggjuhverfisins í Grafarvogi, og ekkert verðmat unnið sem tæki tillit til þeirrar vinnu við landfyllingu á svæðinu sem á að ljúka á næstu árum.
„Það væri meiriháttar stefnubreyting hjá Faxaflóahöfnum ef þær ætluðu ekki að selja hafnarland aftur til eigenda sinna. Það var algjör einhugur um það meðal annarra í stjórninni að víkja ekki frá núverandi stefnu,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarformaður Faxaflóahafna.

Landið er nú athafnasvæði steinefnaframleiðandans Björgunar og gengur undir vinnuheitinu Bryggjuhverfi vestur. Á þeirri landfyllingu er gert ráð fyrir allt að 850 íbúðum og munu öll mannvirki víkja nema tveir sementstankar sem eru syðst á svæðinu.
Faxaflóahafnir, sem eru í eigu Reykjavíkurborgar og fjögurra annarra sveitarfélaga, sömdu við Björgun fyrir rúmu ári þar sem gert var ráð fyrir starfsemi fyrirtækisins þar til maíloka 2019. Gert er ráð fyrir að landfyllingin stækki út í sjó, vestan við athafnasvæðið, og hefur verið samið við Björgun um gerð hennar.