Innlent

Stefnt að fundi með íbúum á morgun vegna ástands Öræfajökuls

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Nýr sigketill myndaðist í Öræfajökli í liðinni viku og rafleiðni í Kvíá jókst.
Nýr sigketill myndaðist í Öræfajökli í liðinni viku og rafleiðni í Kvíá jókst. vísir/gunnþóra
Stefnt er að því að Almannavarnir, viðbragðsaðilar og íbúar í Öræfum fundi á morgun um hvernig skuli bregðast við þeim aðstæðum sem upp geta komið vegna hlaups eða eldgoss í Öræfajökli. Óvissustigi vegna ástandsins verður viðhaldið að minnsta kosti þar til á morgun.

Vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðhitastofnun Háskóla Íslands unnu í gær úr gögnum sem sótt voru í tveimur ferðum í og við jökulinn í fyrradag. Mikil óvissa er um hvert framhald atburðarásarinnar getur orðið.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni á Suður­landi segir að fyrir tveimur vikum hafi verið haldnir íbúafundir á svæðinu þar sem farið var yfir verkefni varðandi rýmingar- og viðbragðsáætlanir. Stefnt var að því að halda þeirri vinnu áfram á seinni hluta síðasta árs en vendingar síðustu daga hafa gert það að verkum að allt kapp er lagt á að ljúka þeirri vinnu.

„Þessir atburðir þýða það að við munum klára ársvinnu á nokkrum dögum,“ segir Víðir Reynisson, verkefnastjóri Almannavarna á Suðurlandi. Almannavarnir sendu frá sér yfirlýsingu með tilmælum í gær en stefnt er að því að meira kjöt verði komið á beinin í dag.

„Við vinnum hörðum höndum að því að safna púsluspilum saman til að fá betri skilning og mynd á hvað er í gangi,“ segir Víðir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×