Lífið

Sófus pantaði óvart 85 pizzur: „Náðum einhvern veginn að raða þessu í bílinn“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sófus starfar hjá Elko í Lindum.
Sófus starfar hjá Elko í Lindum.
Sófus Árni Hafsteinsson, yfirmaður hjá ELKO í Lindum, pantaði óvart 85 pizzur fyrir starfsfólk sitt á dögunum en hann hafði reiknað út að hver starfsmaður fengi hálfa pizzur.

Þeir voru aftur á móti aðeins fjörutíu talsins.  Sófus greinir frá þessu á Twitter og deilir í leiðinni skemmtilegu myndbandi frá því þegar hann sótti pizzurnar.

„Daginn sem ég reiknaði óvart með 2 pizzur fyrir hvern starfsmann í stað 2 starfsmann á hverja pizzu... Og pantaði 85 pizzur fyrir 40 starfsmenn,“ segir Sófus með myndbandinu á Twitter.

Hann bætir síðan einnig við: „Mér til varnar var Megavika hjá Dominos! Og Svartur Fössari hjá okkur í ELKO“

Allir í belti.
„Svartur Fössari í hámarki hjá okkur í ELKO. Náði hámarki þennan föstudag og við höfum alltaf keypt hádegismat handa starfsfólkinu á Svörtum Fössara. Það vildi svo heppilega til að það var Megavika hjá Dominos. . Yfirleitt þegar ég panta pizzur fyrir starfsfólkið þá miða ég við sirka hálfa pizzu á hvern starfsmann,“ segir Sófus.

„Svo þegar ég er búinn að telja hversu margir starfsmenn eru á vakt þá byrja ég að púsla saman pöntuninni - en í stað þess að deila fjölda starfsmanna með tveimur þá margfalda ég með tveimur. Þannig að fyrir rúmlega 40 starfsmenn hefði ég átt að rúmlega 20 pizzur en í staðinn pantaði ég rúmlega 85 pizzur - eða fjórfalt meira en við þurftum.“

Sófus segir að hvergi í ferlinu hafi það hvarflað að honum að þetta væri svona rífleg pöntun.

Æsispennandi bílferð

„Ekki einu sinni þegar starfsmaður Dominos þurfti að hringja í verslanirnar til að athuga hver gæti tekið þessa pöntun að sér. Við fórum á bíl að sækja pizzurnar frekar en að láta senda, enda Megavika og tilboð á sóttum pizzum, og náðum einhvern veginn að raða þessu í bílinn með því að leggja niður sætin og stafla þessu alveg upp í loft. Bílferðin var svo æsispennandi því þessir fjórir staflar hreyfðust vandræðalega mikið í hvert skipti sem við tókum af stað, bremsuðum, beygðum og keyrðum niður brekku. Það var svo ekki fyrr en við vorum búnir að trilla öllum pizzunum upp á kaffistofuna að ég fór að pæla... kannski er þetta aðeins of mikið.“

Sófus segir að staffið  hafi tekið með sér pizzakassa heim eftir vaktina.

„Þegar við vorum að keyra og sækja pizzurnar þá fékk ég símtal frá pizzastaðnum og var ég spurður hvort við værum ekki alveg örugglega á leiðinni - því þeir voru ekki með meira pláss fyrir pizzur á hitagrindinni. Ekki einu sinni þá fattaði ég að ég hefði pantað yfirdrifið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.