Innlent

Sílóin rifin niður með gamla laginu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sílóin hafa staðið af sér tvær sprengingar en mæta nú vinnuvélum.
Sílóin hafa staðið af sér tvær sprengingar en mæta nú vinnuvélum. vísir/anton brink
„Hingað til höfum við farið eftir ráðleggingum sérfræðinga en nú tökum við þetta bara niður með okkar lagi,“ segir Þórarinn Auðunn Pétursson, framkvæmdastjóri Work North ehf.

Work North sér um niðurrif á gömlu Sementsverksmiðjunni á Akranesi en það hefur vakið athygli undanfarna daga hve illa hefur gengið að fella fjögur síló sem standa á lóð verksmiðjunnar. Fyrsta atrenna átti sér stað síðasta laugardag síðasta árs en þá var dýnamít brúkað til verksins. Þeirri tilraun lauk með því að turnarnir halla nú nokkuð en standa enn. Önnur tilraun var gerð viku síðar, laugardaginn 6. janúar, en sprengiefnið beit ekki á geymunum sem hreyfðust ekki.

„Við vildum flýta ferlinu með því að nota sprengiefni. Teikningarnar af sílóunum eru hins vegar gamlar og það er ekki alveg að marka þær. Í þeim er mikil steypa og mikið af steypustyrktarjárni. Skammt frá er 60 metra hár strompur sem á að lifa niðurrifið af þannig að það þurfti að vanda til verka,“ segir Þórarinn.

Þórarinn á ekki von á því að reynt verði að sanna hið fornkveðna að allt sé þegar þrennt er. „Nú tökum við þetta bara niður með vélum.“




Tengdar fréttir

Fóru leynt með sprenginguna á Akranesi til að forðast athygli

Bæjarstjórinn á Akranesi segir verktakann við niðurrifið á Sementsverksmiðjunni ekki hafa gert bæjaryfirvöldum kleift að sinna upplýsingaskyldu sinni við bæjarbúa. Réðst í að reyna að sprengja niður rammgerð síló á laugardag.

Þúsundir sérfræðinga eftir sementssprengingu

Sú staðreynd að ekki tókst að fella fjögur síló á lóð Sementsverksmiðjunnar á Akranesi var ein margra sviðsmynda sem uppi voru hjá verktakanum. Verktakinn segir að furðu margir Íslendingar virðist vera orðnir sprengjusérfræðingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×