Innlent

Bæta þarf úr aðgengi fatlaðra að fótboltavöllum

Nadine Guðrún Yaghi og Þórdís Valsdóttir skrifa
Alexander Harðarson tómstundafræðingur gerði úttekt á fótboltavöllum knattspyrnuvalla og segir að gera þurfi úrbætur til að bæta aðgengi fatlaðs fólks.
Alexander Harðarson tómstundafræðingur gerði úttekt á fótboltavöllum knattspyrnuvalla og segir að gera þurfi úrbætur til að bæta aðgengi fatlaðs fólks. Vísir/Valgarður
Úttekt á aðgengi fyrir fatlað fólk á íslenskum fótboltavöllum leiddi í ljós að víða þarf að gera miklar úrbætur. Tómstundafræðingur, sem framkvæmdi úttektina, segir að til að mynda sé sjónlína frá hjólastólastæði verulega skert á flestum vallanna.

Verkefnið „Allir á völlinn“ fjallar um stöðu aðgengismála fyrir fatlaða stuðningsmenn að áhorfendasvæðum knattspyrnuvalla á Íslandi árið 2017. Alexander Harðarson vann verkefnið ásamt Ólafi Davíðssyni, en þeir heimsóttu alla velli í efstu deild karla og kvenna og gerðu aðgengisúttektir með aðstoð gátlista.

„Samkvæmt þessum nýjustu tölum er ýmislegt sem þarf að breyta og bæta. Hvergi eru skilgreind hjólastólastæði á völlunum og sjónlínu er oft ábótavant. Fatlaðir stuðningsmenn eiga það til að missa af veigamiklum atriðum í leiknum ef sjónlínan er ekki í lagi,“ segir Alexander Harðarson tómstundafræðingur. 

Úttektin leiddi í ljós að á öllum völlum sem heimsóttir voru þarf að gera útbætur. Alexander segir að slæm aðstaða til áhorfs geti komið í veg fyrir að fatlaðir stuðningsmenn sæki vellina heim og geti stutt sitt lið til jafns við aðra stuðningsmenn.

Þá segir hann mikilvægt sé að gerðar verði útbætur. „Það þarf að setja reglugerðir um það að bæta aðgengi af því að fótbolti er íþrótt sem allir eiga að hafa jafnan aðgang að.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×