Innlent

Öruggur staður fyrir hinsegin ungmenni

Daníel Freyr birkisson skrifar
USA, California, San Francisco, rainbow flag (gay pride flag) Gay pride fáni
USA, California, San Francisco, rainbow flag (gay pride flag) Gay pride fáni
Hátt í fimmtíu ungmenni mæta á þriðjudagskvöldum í hinsegin félagsmiðstöð við Suðurgötu. „Við leggjum mikið upp úr því að skapa öruggt umhverfi fyrir krakkana og auðvitað ríkir hundrað prósent trúnaður,“ segir Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar. Hún er rekin er í húsnæði Samtakanna '78.

Samtökin og Reykjavíkurborg framlengdu nýverið fræðslu- og þjónustusamning. Þannig hefur rekstur félagsmiðstöðvarinnar verið tryggður út árið 2020.

Í félagsmiðstöðinni gefst krökkum á aldrinum 13 til 17 ára kostur á að sækja fjölbreytta dagskrá, hvort sem þeir eru hinsegin eða áhugasamir um hinsegin málefni, alla þriðjudaga frá hálf átta til tíu. „Við höfum haldið YouTube-kvöld, bakað, verið með kynfræðslu og alls konar,“ segir Hrefna. „Þarna gefst þeim tækifæri á að hitta önnur ungmenni sem eru í svipuðum pælingum.“

Starfið hófst sem tilraunaverkefni árið 2016 og var þá ætlað fólki á aldrinum 13 til 25 ára. Hlutirnir undu hratt upp á sig og var að lokum ákveðið að hanna starfið eftir hefðbundnum félagsmiðstöðvum og miða að krökkum á aldrinum 13 til 17 ára. Það hefur gengið mjög vel að sögn Hrefnu. – dfb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×