Innlent

„Nokkrir strákar stunduðu það að elta mig heim og berja mig“

Magnús Hlynur Hreiðarsson og Þórdís Valsdóttir skrifa
Salka Sól gerir töluvert af því að heimsækja grunnskóla og framhaldsskóla landsins til að tala um einelti.
Salka Sól gerir töluvert af því að heimsækja grunnskóla og framhaldsskóla landsins til að tala um einelti. Vísir/Ernir
Söngkonan Salka Sól lenti í alvarlegu einelti, fyrst níu ára gömul og alveg þar til hún hætti í grunnskóla þrettán ára gömul. Hún lýsti eineltinu á Kátum dögum nemenda Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi í vikunni en hún gerir töluvert af því að heimsækja grunnskóla og framhaldsskóla landsins til að tala um einelti.

„Það byrjaði sem andlegt og byrjaði bara sem lítill kjarni en svo bættist alltaf í kjarnann. Svo urðu það eldri strákar líka, eldri bekkir. Þegar ég var tólf ára var fyrst kveikt í skólatöskunni minni og svo ráðist á mig. Þá voru þetta nokkrir strákar sem stunduðu það að elta mig heim úr skólanum og berja mig,“ sagði Salka Sól á Kátum dögum.

Salka Sól segir að sitt einelti hafi bæði verið andlegt og líkamlegt sem tók mörg ár að vinna úr. „Í stað þess að rifja alltaf endalaust upp hvernig, hvað gerðist og hvað var, þá vil ég frekar einblína á hvernig við lærum að vera heild, hvernig við umberum einstaklinga og hvernig við vinnum úr því, úr áföllum og hvernig er hægt að komast upp úr því. Mér finnst ég vera lifandi dæmi um það að það sé hægt að komast upp úr því af því að mér líður vel í dag og er á góðum stað.“

Hún segst vera búin að fyrirgefa eineltið og vinna vel úr sínum málum með hjálp fjölskyldu, vina og fagaðila. „Þetta er bara samfélagsmein sem er alltaf til staðar, bæði á grunnskólum og á vinnustöðum, en ég vona að umræðan geti hjálpað til við að útrýma því og það þurfa allir að horfa inn á við,“ segir söngkonan Salka Sól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×