Innlent

Tveir menn í sjálfheldu á Heiðarhorni

Þórdís Valsdóttir skrifar
Björgunarsveitir frá Akranesi, Varmalandi, Borgarnesi og Reykholti eru á leið á vettvang og sækja að úr fjórum áttum.
Björgunarsveitir frá Akranesi, Varmalandi, Borgarnesi og Reykholti eru á leið á vettvang og sækja að úr fjórum áttum. Vísir/map.is
Björgunarsveitarmenn hafa verið kallaðir út á Vesturlandi vegna tveggja göngumanna sem eru í sjálfheldu á Heiðarhorni, hæsta tinds Skarðsheiðar. Fjöldi manna taka þátt í björguninni en mennirnir treysta sér ekki niður án aðstoðar. 

„Fyrstu menn eru komnir að þeim núna, ástandið er í fljótu bragði nokkuð gott og verið er að vinna í því að koma þeim niður. Við erum að sækja að þeim úr fjórum áttum með snjóbílum, sexhjólum og göngumönnum,“ segir Þór Þorsteinsson vettvangsstjóri á vettvangi.

Þór segist ekki eiga von á því að færa þurfi mennina á sjúkrahús til aðhlynningar, en þeir eru ekki slasaðir. „Það fer eftir því hvernig okkur gengur að sækja að þeim með vélknúnum tækjum. Að öllum líkindum eru þeir orðnir kaldir og þá munum við reyna að koma þeim á hreyfingu sem fyrst,“ segir Þórir.

Tuttugu og sex björgunarsveitarmenn frá Akranesi, Varmalandi, Borgarnesi og Reykholti vinna að því að bjarga mönnunum.  

Þór segir að það sé talsvert frost á svæðinu og mjög hált. „Það er hvasst og svolítið vindkul og frost eðlilega. En aðallega er þetta mikið harðfinni og ís og það er mjög hált og varasamt,“ segir Þór.

Uppfært klukkan 19:35:

Björgunarsveitarmenn náðu til mannanna um klukkan sex í dag og voru þeir komnir niður af fjallinu rétt fyrir klukkan sjö. Heilsast mönnunum ágætlega að sögn Þórs Þorsteinssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×