Innlent

Lofa sex milljóna króna fundarlaunum fyrir stolinn tölvubúnað

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Eigendur tölvubúnaðar sem stolið var úr gagnaveri á Suðurnesjum fyrir nokkrum vikum heita sex milljónum króna í fundarlaun til þess sem getur veitt áreiðanlegar upplýsingar um hvar búnaðinn er að finna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að ábendingar um búnaðinn þurfi að berast fyrir 12. apríl næstkomandi og að fundarlaunin verði greidd til þess sem lögregluyfirvöld staðfesta að hafi fyrstur komið á framfæri ábendingu um hvar búnaðinn er að finna.

Lögfræðistofa sem fer með málið fyrir hönd eigenda búnaðarins sér um að annast greiðslu fundarlauna.

Tveir íslenskir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna umfangsmikillar rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á þremur innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð þar sem samtals 600 tölvum var stolið. Innbrotin áttu sér stað á tímabilinu frá 5. desember 2017 til 16. janúar 2018.

Verðmæti þýfisins eru talin nema rúmum 200 milljónum króna. 

Þeir sem búa yfir upplýsingum um málið eru hvattir til að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma: 8320253.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×